145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:23]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að þetta geti haft skaðvænlegar afleiðingar. Það er ekki að ástæðulausu sem menn hafa sett sér þau markmið innan stjórnsýslunnar að reyna eftir föngum að fjarlægja framkvæmdina hinu pólitíska valdi en hafa síðan eftirlitið aðgreint og tryggja með þeim hætti aukið gagnsæi. Það er til dæmis eitt af því sem getur valdið því að maður getur orðið fórnarlamb breytinga af þessu tagi, að það dragi úr gagnsæinu. Ég hef vakið athygli á því að frumvarp um opinber fjármál sem senn lítur dagsins ljós, og gerði það reyndar í vor einnig, sem færir framkvæmdarvaldinu aukið vald, aukið verksvið og aukið vald, geti orðið til þess að draga enn úr gagnsæinu. Þegar þetta allt kemur saman tel ég ástæðu til að hafa af því nokkrar áhyggjur. Það stríðir gegn þeim markmiðum sem menn almennt setja sér innan stjórnsýslunnar, að aðgreina annars vegar framkvæmd og hins vegar eftirlit. Ég lít svo á að ráðuneyti eigi að vera í líkingu við skurn sem ekki er endilega með blómann innan borðs og gín ekki yfir öllu. Þarna er um gífurlega fjármuni að ræða, um milljarða króna, og ég held að þetta muni draga úr gagnsæinu þegar Þróunarsamvinnustofnun sem slík er lögð niður og starfsemin öll er færð undir vængi ráðuneytisins. Ég held að hætt verði við því að að það verði gagnsæið sem verði fórnarlambið.