145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:25]
Horfa

Róbert Marshall (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að menn þurfi einmitt að velta fyrir sér þýðingu orðsins „ráðuneyti“ í þessu samhengi. Það er ekki sami hluturinn; sjálfstæð stofnun sem sinnir skilgreindu hlutverki, eins og Þróunarsamvinnustofnun, og síðan einhver skrifstofa inni í ráðuneyti. Hvað er ráðuneyti? Það er einhvers konar föruneyti þess sem fer með málaflokkinn hverju sinni. Það er ráðuneyti ráðherrans, ef svo má að orði komast, þannig að það er algerlega búið að má út mörkin sem eru á milli þessa skilgreinda hlutverks stofnunarinnar og ráðuneytisins. Verkefnið er ekki bara tilfallandi verkefni, eitthvert verkefni sem menn sinna um tiltekinn tíma og er lokið, heldur viðvarandi verkefni, skylda okkar í samfélagi siðaðra þjóða sem við eigum að vera að sinna hverju sinni. Það á ekki að vera undir pólitísku föruneyti eða ráðuneyti ráðherra hverju sinni. Menn eiga að vera með stefnu í þessum efnum. Þjóðfélög og samfélög setja sér stefnu og sinna þeim alveg burt séð frá því hver er ráðherra hverju sinni. Það á ekki að vera háð geðþóttavaldi hans. Ef hann vill gera breytingu á stefnu þjóðarinnar í þessum efnum á hann að gera svo vel og koma með hana hingað inn í þing og leggja fram lagafrumvarp um það mál, leggja fram tillögur og segja hvaða breytingar hann vilji gera.

Það er fyrir neðan allar hellur að gera þetta með jafn veikburða rökstuðningi og hér um ræðir. Það er hreint út sagt hlægilegt að lesa klásúlur í þessu máli sem gera ráð fyrir því að styrkja eigi hið pólitíska vald með því að búa til þingmannanefnd sem eigi að koma saman tvisvar sinnum á ári til að fjalla um þennan málaflokk, tvisvar sinnum á ári. Það sýnir nú skoðun hæstv. utanríkisráðherra á mikilvægi þess málaflokks sem tröllríður umræðu heimsins í dag. En þetta finnst ráðherranum viðeigandi, að menn tali um á hinum pólitíska vettvangi tvisvar á ári. (Forseti hringir.) Það er skammarlegt.