145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:27]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þætti okkur það vera góð hugmynd að færa Vegagerðina inn í innanríkisráðuneytið? Væri það góð hugmynd? Hefði það aukna skilvirkni í för með sér? Þar væri vissulega meiri nálægð milli ráðherrans og framkvæmdaraðilans, en engum manni mundi detta í hug að leggja það til.

Ráðherrann setur fram tillögur um áætlun í samgöngumálum. Alþingi fjallar um hana og samþykkir eða hafnar. Frá Alþingi kemur almenn ákveðin stefna. Síðan hefur ráðuneytið umsjón með framkvæmdinni en í ákveðinni fjarlægð. Það er tiltekin stofnun sem annast þetta og síðan eru tilteknir þættir sem koma til kasta ráðuneytisins ef þurfa þykir, sitthvað sem lýtur að stefnumótun o.s.frv. En ekki dytti nokkrum lifandi manni í hug að færa starfsemina inn fyrir veggi ráðuneytisins, að framkvæmd með vegamálum yrði ein hæð í ráðuneytinu.

Ég lít á þetta sem svipuð mál. Við erum að tala um milljarðaverkefni sem er núna á vegum sjálfstæðrar stofnunar sem leggja á niður samkvæmt tillögum þessa frumvarps, það er skýrt kveðið á um það, það á að leggja hana niður sem slíka og færa starfsemina inn fyrir veggi ráðuneytisins. Ég tel að það muni draga úr gagnsæi auk þess sem það gengur þvert á það sem verið er að reyna að gera alls staðar í stjórnsýslunni. Þó að ég sé ekki alltaf sammála Ríkisendurskoðun, sérstaklega þegar kemur að svokölluðum mannauðsmálum eða mannauðnarmálum, eins og sumir hafa kallað það, er ég sammála henni um þetta. Þarna er samhugur með þeim sem kynnt hafa sér þessi mál best að þetta er ekki í anda þess sem stjórnsýslan á að ganga.