145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:32]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég er algerlega sammála því. Við eigum að horfa til þess sem aðrar þjóðir draga nú lærdóm af og hvert þær vilja stefna. En meginmálið finnst mér felast í tvennu: Annars vegar að horfa til þess sem við erum almennt að reyna að gera innan stjórnsýslunnar, horfa til þeirra prinsippa sem við byggjum skipulagningu hennar á. Ég legg áherslu á að þetta stríðir algerlega gegn því.

Síðan er það hitt sem hv. þingmaður og fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, bendir á, að nú á sér stað úttekt á fyrirkomulagi þessara mála á vegum OECD, þeirrar stofnunar eða hóps innan OECD sem hefur með þróunarmál að gera þar sem farið er í saumana á fyrirkomulagi víðs vegar um lönd. Auðvitað eigum við að bíða eftir því að þessar niðurstöður, sem eru væntanlegar á komandi ári, liggi fyrir. Ef það væri nú svo að við spöruðum með þessum breytingum mikla fjármuni eða ef eitthvað væri í húfi sem ekki þyldi að málið færi í bið, gegndi hér öðru máli, en svo er ekki. Það eru engin rök færð fram önnur en „af því bara“. Þess vegna finnst mér allt mæla með því að málið verði sett á ís og við fylgjumst með þeirri úttekt sem alþjóðlegar stofnanir framkvæma núna á fyrirkomulagi þróunarmála. Um er að ræða mjög mikla peninga, mikla fjármuni, og við erum að tala um að byggja til framtíðar.