145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:34]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það var við hæfi að hv. þm. Ögmundur Jónasson tæki hér upp málefni starfsmanna. Hann hefur allt sitt líf, bæði hið pólitíska líf og áður en hann hóf það, verið baráttumaður fyrir því að starfsmenn njóti fullra réttinda. En hvað finnst hv. þm. Ögmundi Jónassyni um aðra hlið þessa máls? Hvað finnst honum um með hvaða hætti hæstv. ráðherra tekur ítrekað til máls um stofnunina, bæði í ræðum sínum núna, í fyrra og í greinargerð? Aftur og aftur er ýjað að því að stofnunin sé með einhverjum hætti utan við stefnu sem við og ráðuneytið höfum mótað. Talað er um tvíverknað, talað er um að það þurfi að hagræða og talað er um skörun bæði á stefnumótun og framkvæmd.

Hv. þm. Vilhjálmur Bjarnason kaus sjálfviljugur að bera vitni um þetta mál í gær. Hann sagðist hafa setið á öllum fundum utanríkismálanefndar þar sem starfsmenn ráðuneytisins og ráðherrann sjálfur eftir atvikum voru þráspurð um þetta. Hvergi kom fram eitt einasta dæmi um að stefnan væri eitthvað öðruvísi, að það væri ekki nægilega vel farið með fjármuni eða það væri einhvers konar tvíverknaður eða skörun. Samt kemur hæstv. ráðherra hér og endurtekur þetta. Ég spyr hinn gamla leiðtoga úr stéttabaráttunni: Hvað kalla bandalög og samtök starfsmanna það þegar framkvæmdarvaldið, handhafi þess, ráðherra, kemur ítrekað, æ ofan í æ, og endurtekur ummæli sem ekki geta annað en fallið af því að draga úr trausti á stofnuninni? Stappar það ekki nærri því að vera einelti? Og þegar það er endurtekið ár eftir ár, er það ekki orðið af toga fjölmæla? Má ekki segja að hér sé bókstaflega verið að ráðast að trúverðugleika stofnunarinnar?