145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[16:54]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hyggst við enda þessarar umræðu svara flestum spurningum sem hér hafa komið fram enda eru þær ekki svo margar, þetta er endurtekið efni hjá flestum þingmönnum. Ég kem hér hins vegar upp og nota þennan tíma til að mótmæla ákveðnum hlutum sem hv. þingmaður sagði um aðferðafræði og annað sem viðkemur forstöðumanni stofnunarinnar, fer yfir það síðar.

Hér hafa menn stundum talað um vinnubrögð í þessum ræðustól, ný vinnubrögð. Nú fyrir skömmu óskaði ég eftir því við varaformann þingflokks Samfylkingarinnar að fá að bregða mér frá til að flytja ræðu uppi á Akranesi þar sem eru hátíðahöld út af uppbyggingu iðnaðar sem þar er. Það er verkefni sem er að fara af stað, frábært verkefni fyrir landið í heild, fyrir Vesturland og fyrir okkar kjördæmi, Norðvesturkjördæmi. Þingflokksmaður Samfylkingarinnar hafnaði því að ég fengi að bregða mér frá en ég legg til að þessari umræðu verði frestað, ég get verið kominn aftur kl. 7 og legg til að umræðunni verði frestað þann tíma. En þetta er áhugavert í ljósi þeirra umræðna sem hafa átt sér stað um ný vinnubrögð og í ljósi þess að ég veit ekki hversu oft á síðasta kjörtímabili þáverandi stjórnarandstaða hliðraði til fyrir þáverandi ráðherrum á þeim tíma. En þetta er Samfylkingin sem lætur svona. Ég mun yfirgefa salinn núna. Það er ekki ég sem stýri fundi, að sjálfsögðu ekki, en ég legg til að umræðunni verði frestað.