145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:03]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir ræðu hans. Við höfum átt afskaplega góða og áhugaverða umræðu hér um stjórnsýsluna eða góða stjórnsýslu. Mér fannst mjög áhugavert sem kom fram í ræðu hv. þingmanns um það hvort hér sé verið að fara nýjar leiðir til að segja upp starfsmönnum og þá jafnvel finna nýjar leiðir til að leggja stofnanir niður. Ég skal ekki segja, ég hef ekki sérstaklega mikla þekkingu á þessu sviði eða reynslu, en mér finnst þetta klárlega vera atriði sem við þingmenn eigum að taka til góðrar og mikillar skoðunar. Í þessari umræðu hefur nokkrum sinnum verið spurt, eðlilega, að því er ég tel: Af hverju er verið að reyna að laga eitthvað sem er ekki bilað? Það virðist ekki vera hægt að benda á nein haldbær dæmi um það og ekki færð nein rök fyrir því af hverju hæstv. ráðherra vill ganga svona hart fram í því að Þróunarsamvinnustofnun verði lögð niður og af hverju það liggur svona mikið á.

Mig langar að spyrja hv. þingmann því að nú hefur það komið fram að von er á jafningjarýni DAC strax á næsta ári: Er ekki algjör firra að ætla að fara að kollvarpa því fyrirkomulagi sem við erum með núna þegar fyrir liggur að á næsta ári fáum við úttekt á því hvernig þetta kerfi er að virka og (Forseti hringir.) kannski einhverjar tillögur um það hvernig hægt væri að bæta eitthvað? Eigum við ekki að bíða eftir því?