145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:05]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og innlegg hennar í það.

Ef ég bregst fyrst við því sem kom fram hjá henni síðast, um athugun og skoðun sem verið er að gera og hvort við eigum ekki að bíða eftir því: Jú, sannarlega eigum við að bíða eftir því, en við eigum að bíða, held ég, lengur eftir því að þetta ólánsfrumvarp gangi í gegn vegna þess að við eigum hreinlega að stoppa það.

Við þurfum ekki frekari úttektir, en það er allt í lagi að hafa þær. Ríkisendurskoðun hefur meðal annars gert úttekt. Umrædd stofnun hefur aldrei farið fram úr fjárlögum, svo dæmi sé tekið. Hún hefur með öðrum orðum verið ein af fyrirmyndarstofnunum ríkisins en samt sem áður er ráðist á hana eins og hér er gert. Segja má kannski að stofnunin sé það mikil fyrirmyndarstofnun að ég minnist þess ekki að hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, sem jafnframt leiddi einhvern sparnaðarhóp sem átti að fara í gegnum þessi hluti, hafi á sinn hátt, eins og hún talaði um hlutina, ráðist að Þróunarsamvinnustofnun út af framúrkeyrslu eða neinu slíku. Ég tel að það hafi verið vegna þess að þar var ekkert að finna sem hægt var að gagnrýna þá stofnun fyrir. Þar er ekkert að finna annað en gott starf forstjóra og starfsfólks og allra þeirra sem starfa á þessu sviði, sem hafa staðið sig með mikilli prýði og hafa fengið viðurkenningar eins og hér hefur komið fram fyrir starfsemi sína.

Það sem ég vil kannski taka undir og ítreka enn frekar er það sem ég gerði að hluta af ræðu minni áðan og snertir þessa nýju nálgun ríkisstjórnarinnar um að segja upp starfsmönnum og leggja niður litlar og meðalstórar stofnanir og sameina. Ég held nefnilega, og það er rétt sem hv. þingmaður spyr mig um, að þessi nýja leið, þessi nýja samþykkt, eigi að gilda um það sem hér er verið að gera þó að það sé ekki sagt í frumvarpinu.