145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:07]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir svarið. Það kom líka fram í máli hv. þingmanns að hann velti fyrir sér hvort hér sé verið að ásælast peninga Þróunarsamvinnustofnunar til þess að fá þá inn í ráðuneytið. Hv. þm. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir sagði í umræðunni í gær að verið sé að taka málið af fagstofnun og færa það nær hinum pólitíska barmi ráðherrans. Ég vil spyrja: Heldur hv. þingmaður að það geti verið að ráðherranum liggi svona mikið á að koma allri þróunarsamvinnu undir sinn arm til að hann geti hlutast til um það hvers konar pólitík sé þá notuð, (Forseti hringir.) að þróunarsamvinna verði hreinlega notuð í pólitískum tilgangi og þá fyrir Ísland sem veitanda aðstoðarinnar en ekki fyrir pólitískum hagsmunum þiggjandans?