145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:15]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Talandi um formlegheit, þá hefði ég nú kannski haldið að hæstv. ráðherra hefði átt að fara yfir það með forseta þingsins og þingflokksformönnum að hann þyrfti að fara frá, ef hann teldi það mikilvægt að fara úr þinghúsinu. Mér finnst úr því sem komið er best að við frestum bara fundi og við tökum upp þráðinn á morgun því ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa talað um það að ekki sé gott að standa hér og tala og spyrja spurninga sem aðeins hæstv. ráðherra getur svarað og hann er ekki á staðnum. Mér finnst það því góð hugmynd að fundinum verði þá bara frestað og við tökum umræðuna aftur á morgun þegar hæstv. ráðherra hefur sinnt sínum mikilvægu erindagerðum.