145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:16]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Þetta er sem sagt sagan af 145. þingi. Hér erum við í viku tvö og það gerðist í gær að mælt var fyrir stjórnarfrumvarpi kl. 8 um kvöld einhverra hluta vegna, sem við áttuðum okkur reyndar betur á eftir því sem umræðunni vatt fram að enginn stóð með málinu nema ráðherrann. Það mætti segja mér að ef það yrði leynileg atkvæðagreiðsla um þetta hér í þingsal þá færi það sirka 62:1 á móti málinu. Það er kannski þess vegna sem ráðherrann vill bara gera þetta hratt og vel, en hann verður veskú að vera hér til staðar á meðan við erum að ræða málið vegna þess að þetta er mjög mikið álitamál og mikill ágreiningur um það.

Ráðherrann hefur sjálfur komið hér upp og óskað eftir því að fundi verði frestað til kl. 7 vegna þess að þá geti hann komið aftur til umræðunnar. Það finnst mér eðlilegt að gera vegna þess að það er algerlega óeðlilegt að halda umræðunni áfram án þess að ráðherrann sé í húsi. Við skulum þá bara gera hlé á fundinum til kl. 7 og halda svo umræðunni áfram

Virðulegi forseti. Það þarf aldeilis að fara að huga að því hvernig 145. þing er að fara á stað.