145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[17:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er mér að meinalausu að byrja aftur að ræða þetta mál kl. 19. Hér eru tveir þingmenn Pírata á mælendaskrá og við vonumst til að geta tekið til máls í kvöld. En hins vegar verður að viðurkennast að það er svolítið skrýtið að hefja umræðuna kl. 19 og ljúka henni kl. 20, að hafa einn klukkutíma til að ræða þetta mál. Gera má ráð fyrir að það séu kannski tveir til þrír ræðumenn eða eitthvað því um líkt og þegar svo ber við sé ég enga ástæðu til þess að hafa þennan klukkutíma til umræðna akkúrat í kvöld. Þetta er ekki nokkur tími. Við getum alveg eins frestað umræðunni út daginn og tekið hana upp að nýju á morgun. Ég held að það mundi koma í sama stað niður hvað varðar efnisgæði umræðunnar, fyrir utan það að ýmsir þingmenn gætu eflaust nýtt afganginn af deginum betur í önnur störf ef þessi klukkutími færi í eitthvað annað.

Að því sögðu þá hef ég skilning á því að hæstv. utanríkisráðherra þurfi að fara, en það er ljóst að við þurfum ekki að hafa þennan klukkutíma til umræðna í kvöld.