145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:24]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Það er líkt farið með mér og hv. þm. Lilju Rafneyju Magnúsdóttur. Ég velti fyrir mér tvennu sem mér heyrist hún líka velta fyrir sér. Annars vegar: Af hverju er þetta frumvarp yfirleitt lagt fram? Þróunarsamvinnustofnun hefur fengið góða umsögn hjá þróunarsamvinnunefnd OECD, sem kölluð er DAC. Fyrirkomulagið hér hefur fengið góða umsögn þar. Af hverju á þá að breyta? Það er enginn sparnaður af því. Gárungarnir segja að það sem menn hafi út úr því sé að til verði þrjár nýjar sendiherrastöður. Ég vil helst ekki trúa slíku, virðulegi forseti, og ég ætla nú að vona að það sýni mig ekki sem kjána af því að þetta frumvarp verði samþykkt, ég segi það alveg satt.

Það er sem sagt þetta tvennt sem ég velti fyrir mér, sem mér heyrist hv. þingmaður gera líka: Af hverju? Og svo hitt, virðulegi forseti: Af hverju þennan asa? Af hverju liggur svona mikið á?

Fram hefur komið að fara á fram jafningjaúttekt 2016. Nú er hálfu ári styttra í það en þegar við ræddum þetta síðast. Menn sögðu þá: Eigum við ekki að bíða eftir jafningjaúttektinni, það er nú ekki svo langt í hana? Nú er búið að skera hálft ár af þeim biðtíma og hvað liggur þá á? (Forseti hringir.) Getur það verið, virðulegi forseti, að (Forseti hringir.) það liggi svo mikið á að afgreiða frumvarpið áður en (Forseti hringir.) jafningjaúttektin fer fram? Er það asinn í málinu?

— Ég bið hæstv. forseta að afsaka að ég talaði aðeins of lengi.