145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:27]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, auðvitað læðist að manni sá ótti að hluti af því að leggja þetta mál fram strax í upphafi þings sé að það eigi örugglega að reyna að fá það afgreitt á þessum þingvetri og að þá verði ekki aftur snúið þó að jákvæð niðurstaða komi út úr jafningjaúttektinni sem hv. þingmaður vísar til. Það er mjög spennandi að sjá hvaða einkunn Þróunarsamvinnustofnun Íslands fær í þeirri úttekt, hvort hún stendur sig vel eins og allar fyrri úttektir hafa sýnt fram á, hvort bæta megi einhverju þar við og annað því um líkt.

Hæstv. ráðherra sá fram á mikla gagnrýni í vor þegar hann lagði málið fram, en þá var vísað til þessarar úttektar. Það er slæmt að hann skyldi ekki að hafa haft þolinmæði til þess að bíða eftir jafningjaúttektinni sem niðurstöður munu koma úr árið 2016.

Það minnir mann svolítið á annað mál, óskylt, varðandi það hvernig hæstv. ráðherrar vinna. Þegar fara átti að hraða afgreiðslu virkjunarkosta innan rammaáætlunar og reyna að koma þeim inn fyrir gullna hliðið fyrir ákveðinn tíma var það stoppað af. Þá ákvað hæstv. umhverfisráðherra að bíða bara eftir niðurstöðu verkefnisstjórnar. Ég held að hæstv. utanríkisráðherra ætti að taka þann samflokksráðherra sinn sér til fyrirmyndar og bíða í þessu umdeilda máli að minnsta kosti eftir niðurstöðu úttektar þróunarsamvinnunefndar OECD.