145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er mjög áhugavert innlegg og andsvar sem hv. þm. Össur Skarphéðinsson kemur með hér. Til hvers að vera eyðileggja, segi ég bara, eitthvað sem hefur gengið svona vel og er til fyrirmyndar? Fyrirkomulagið á sér fyrirmynd eins og hv. þingmaður fór yfir hjá fjölda annarra landa sem við getum alveg litið til sem fyrirmyndarlanda í þessum efnum. Í dag mennta fjöldamargir einstaklingar sig til að sinna þróunaraðstoð, þetta er orðið fag innan háskólaakademíunnar. Við eigum auðvitað að hlusta á hvað virtar stofnanir eins og Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands segja.

Mér fyndist það vera miklu álitlegra og meira spennandi verkefni ef hæstv. ráðherra sneri sér að því að útvíkka starfsemi stofnunarinnar og færa þau verkefni sem eru núna á þessu sviði innan ráðuneytisins og eru ekki innan Þróunarsamvinnustofnunar, til hennar. Það væri auðvitað miklu eðlilegra skref í lýðræðisátt miðað við nútímastjórnsýsluhætti að gera það frekar en vera með slík gamaldags vinnubrögð að draga sjálfstæða stofnun undir væng ráðuneytisins. Þegar maður hugsar meira um málið þá er það svo mikil afturför að það er með ólíkindum að verið sé að bjóða upp á slík vinnubrögð hér í þinginu.