145. löggjafarþing — 7. fundur,  16. sept. 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

91. mál
[19:41]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hvað á það að þýða að við þurfum að fara í leikinn „Hvar er Valli?“ í hvert einasta skipti, liggur við, sem við reynum að ræða utanríkismál? Hæstv. utanríkisráðherra er varla búinn að vera viðstaddur síðan við byrjuðum umræðuna klukkan sjö. Hann mætti þó á réttum tíma. Það var nú eins gott því að klukkuna vantar 18 mínútur í átta. Við eigum ekki sérstaklega mikinn tíma eftir, er það nokkuð? Af hverju var fundinum ekki bara frestað þannig að hæstv. utanríkisráðherra gæti verið hér viðstaddur almennilega, vel sofinn, vel nærður og ég veit ekki hvað og hvað? Það er náttúrlega bara hneyksli að hann sé ekki viðstaddur þegar við ræðum eitt helsta forgangsmál hans. Hvað á það að þýða að bjóða okkur þingmönnum upp á þetta? Það er náttúrlega bara ekki við hæfi.