145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[10:32]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða flóttamannamálin við hæstv. ráðherra. Við höfum fengið óljósar fregnir af því að ríkisstjórnin sé að vinna í þessum málum þessa dagana og heyrðum af því í gær að menn sjái fyrir sér að taka einhverjar ákvarðanir á morgun á ríkisstjórnarfundi. Mig langar að hvetja ríkisstjórnina til að gera það og taka ákvörðun á morgun um þann fjölda flóttamanna sem við getum byrjað á að taka á móti núna vegna þess að tíminn er ekkert að vinna með þessu fólki.

Við heyrum það frá Rauða krossinum líka að þeir telji að við séum vel tilbúin til að gera þetta. Á annan tug sveitarfélaga hafa lýst því yfir að þau séu tilbúin. Við erum með sterka innviði hér á landi og við getum vel gert þetta.

Mér hefur þótt dálítið erfitt að skilja til dæmis forsætisráðherra þegar hann ræðir þessi mál og hvernig hann talar um þann hóp sem kominn er til Evrópu eins og hann sé hópur sem við eigum ekki að horfa til. Það má ekki gleyma því að þetta eru svokallaðir undanfarar. Fjölskyldan ákveður að fjármagna einn eða senda þann sterkasta úr fjölskyldunni á undan vegna þess að öll fjölskyldan getur ekki af einhverjum ástæðum farið með. Við megum ekki fara að flokka fólk með þessum hætti að mínu mati og frekar eigum við að gera þetta með eðlilegum hætti í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og byrja verkefnið. Það fer ákveðið ferli af stað sem tekur töluverðan tíma þegar við höfum lýst því yfir að við viljum taka á móti hópi flóttamanna og þess vegna er ekki seinna vænna að gera það, lýsa því yfir og síðan hefja prósessinn.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra: Hvað hyggst ríkisstjórnin fyrir? Ætlar ríkisstjórnin að fara að handvelja fólk hingað inn? Er ekki eðlilegast að fara í gegnum Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna (Forseti hringir.) og gera þetta eftir þeirra verkferlum frekar en við séum að búa okkur til einhverjar mjög vafasamar kríteríur hér innan lands um það hverjir megi koma og hverjir ekki?