145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[10:35]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Júlíusdóttur fyrir fyrirspurnina. Ráðherra nefndi um málefni flóttamanna að við munum funda á morgun og eins og komið hefur fram í máli forsætisráðherra værum við búin að kortleggja það á næsta fundi hversu mörgum verði hægt að taka vel á móti sem fyrsta hópi, og sá fundur er á morgun.

Ég vil hins vegar líka minna á það eins og hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að við erum nú í dag að taka á móti flóttamönnum. Nú þegar í septembermánuði erum við raunar búin að taka á móti meiri fjölda bara í ár en var tekið á móti á öllu síðasta kjörtímabili þannig að það er búið að tvöfalda fjölda þeirra einstaklinga sem hafa fengið dvalarleyfi hér sem flóttamenn eða komið sem kvótaflóttamenn frá því sem var gert á síðasta kjörtímabili. Þetta þýðir að við erum búin að öðlast miklu meiri reynslu í því hvernig á að standa að þessu. Við höfum unnið með Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna og við höfum mótað reglur sem við gáfum út í ráðuneytinu, sem byggjast einmitt á þeirri reynslu, um hvernig best er að taka á móti flóttamönnum.

Ég hef sjálf fundað með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna í þessari viku þar sem við upplýstum um það að við hefðum í hyggju að taka á móti fleiri flóttamönnum í gegnum samstarf við þá. Við treystum að sjálfsögðu á leiðbeiningar þeirra um hvernig sé best að gera það. Það sem þau bentu á var einmitt að það væri mjög mikilvægt að upplýsa fólk með sem bestum hætti áður en það kemur til landsins um það hvert það er að fara og hvernig aðstæður eru hér á landi.

Annað atriði sem líka hefur verið rætt og við erum að vinna að núna er að það hefur verið skortur á túlkum. Við tókum til dæmis á móti 13 sýrlenskum flóttamönnum sem kvótaflóttamönnum fyrr í ár og það hefur komið upp að hér er skortur á túlkum sem tala arabísku og geta túlkað á milli hér í samfélaginu (Forseti hringir.) þannig að við erum bæði að leita eftir fleira fólki en líka að þjálfa það fólk sem er þegar fyrir.