145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

móttaka flóttamanna.

[10:38]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Það hefur komið fram í tölum Sameinuðu þjóðanna að það eru tæplega 60 milljónir manna á flótta í heiminum. Þetta fólk hefur verið á flótta lengi og það endurspeglast t.d. í ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að lána skip Landhelgisgæslunnar til að bjarga flóttamönnum á síðasta kjörtímabili.

Við vitum að stærsti fjöldinn, áður en þetta ástand kom upp í Sýrlandi, var frá Afganistan. Sem betur fer hefur gengið betur að hjálpa fólki að snúa aftur við þar. Það hefur komið margítrekað fram í máli mínu og annarra ráðherra ríkisstjórnarinnar að strax og við tókum við, þá tókum við ákvörðun um að hefja aftur að taka reglulega á móti kvótaflóttamönnum. Því var að hluta til hætt á síðasta kjörtímabili. Við höfum líka tekið á móti mun fleiri flóttamönnum í gegnum hælisleitendaferlið en áður. Við höfum séð það á síðustu vikum að fjöldi þeirra hefur margfaldast sem sækja um hæli hér á landi og fá dvalarleyfi sem flóttamenn. (Forseti hringir.)

Við munum, það hefur komið hér fram og ég sagði það í upphafi míns máls, funda á morgun (Forseti hringir.) og fara yfir hver næstu skref eru. Allir þeir sem hafa unnið að þessum málaflokki, sérfræðingar sem ráðleggja okkur, leggja áherslu á að vanda sig, vanda sig mjög.