145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

beiting Dyflinnarreglugerðarinnar.

[10:42]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni þessa fyrirspurn. Hún hreyfir hér við mjög mikilvægu máli. Þannig er að Dyflinnarreglugerðin er einn mikilvægasti hlekkur sem tengist Schengen-samstarfinu og hefur skipt mjög miklu máli í því hvernig við leysum úr málefnum hælisleitenda, og það að hún sé virk skiptir miklu máli fyrir kerfið innan Evrópuríkjanna og Schengen til að halda utan um þessi mál, sem er móttaka hælisleitenda.

Það er rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni að Íslendingar senda ekki hælisleitendur til baka til Grikklands nú um stundir. Grikkland er ekki talið öruggt land. Það á einnig við um Ítalíu og Ungverjaland, þau eru til viðbótar ekki talin örugg lönd. Það er ekki óhætt að senda fólk til baka þangað. Við fylgjumst núna með ástandinu í Króatíu. Við vitum auðvitað ekki hver þróunin verður þar. Við teljum hins vegar mikilvægt að Dyflinnarregluverkið virki og þegar verið er að senda til baka er verið að senda til öruggra landa á grunni Dyflinnarreglugerðarinnar, sem geta haldið utan um þessar skráningar og lokið við málin. Þetta er eitt af því sem verið hefur til umræðu á vettvangi Schengen-ráðherra undanfarið, bæði í þessari viku og án efa á næsta fundi í næstu viku, af því að menn eru að hittast mjög ört vegna þess mikla vanda sem að okkur steðjar. Ég held að mikilvægt sé fyrir okkur Íslendinga að vera hluti af því hvernig menn taka slíkar ákvarðanir þar, og hérna erum við að vinna með sama hætti og þau ríki sem við vinnum mest með. Við fylgjumst reyndar grannt með en á þessum tímapunkti erum við ekki tilbúin til að taka Dyflinnarreglugerðina úr sambandi.