145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

forritunarkennsla í grunnskólum.

[10:49]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hrósa henni og samþingmönnum hennar fyrir þessa tillögugerð. Ég held að hér sé um að ræða mjög áhugavert mál og ég get sagt það hér og nú að ég mun skoða þetta mál mjög vel.

Gengið var frá nýrri námskrá á síðasta kjörtímabili og hafði ég ekki ætlað mér að gera miklar breytingar þar á, ég tel ekki rétt að gera stanslausar breytingar á námskrám. Reyndar er ég þeirrar skoðunar að betra sé að gera það yfir tíma. Í stað þess að skrifa námskrár alveg frá grunni tel ég rétt að gera einhverjar afmarkaðar breytingar í hvert sinn. Ég held að þetta geti einmitt verið verkefni sem passar inn í þá hugmyndafræði, að í stað þess að umbylta námskránni gæti þetta verið tækifæri fyrir okkur til að vinna eftir slíkri hugmyndafræði.

En það er alveg hárrétt sem hv. þingmaður segir, það er verulegt vandamál í menntakerfi okkar að krakkarnir okkar á grunnskólaaldri og alveg upp í framhaldsskóla velja sig jafnvel kerfisbundið frá raungreinum og greinum sem tengjast vísindum og tækni. Það endurspeglast síðan í samsetningunni á háskólastiginu hjá okkur vegna þess að háskólastigið er heilmikið drifið áfram af eftirspurn nemenda. Ef nemendur hafa ekki fengið nægjanlega örvun og þjálfun í stærðfræði eða öðrum raunvísindagreinum allt frá því að þeir komu inn í grunnskólann þarf enginn að verða hissa þegar kemur að því að nemendur velji sér nám í háskóla að þeir leiti fremur frá þeim greinum sem hv. þingmaður talar um, og mikilvægi þeirra.

Þess vegna leggjum við núna mikla áherslu á læsi til þess að auka við gæðin í skólakerfinu. Við vitum að læsi styður við annað nám. Við þurfum að bæta stærðfræðikennsluna og já, ég held að þetta séu orð í tíma töluð. Þetta er ágæt tillaga og ég mun skoða hana vel einmitt í því samhengi sem ég var að lýsa hér.