145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

forritunarkennsla í grunnskólum.

[10:51]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég held að við séum öll í þessum sal sammála um mikilvægi þess máls sem hv. þingmaður hefur vakið athygli á. Við þurfum á hverjum tíma að tryggja að skólakerfið okkur undirbúi nemendur vel fyrir framtíðina.

Það sem er svo sérstakt við þær aðstæður sem uppi eru núna er að við vitum kannski það eitt að þegar krakkarnir, sem nú eru í sex ára bekk, ljúka háskólagöngu sinni mun verða allt öðruvísi umhorfs í samfélagi okkar, stór hluti þeirra starfa sem við þekkjum verður horfinn og ný störf komin í staðinn, störf sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvaða kröfur munu gera til þeirra einstaklinga.

Það skiptir því máli að menntun barna og ungmenna taki mið af þeirri staðreynd og að við undirbúum þau þannig að þau verði fær til þess að aðlagast, nýta sér tæknibreytingar, yfirfæra þekkingu sína yfir á þær aðstæður sem munu skapast þannig að þetta verði einstaklingar sem geti bjargað sér í þeim heimi sem þeir munu síðan þurfa að starfa og lifa í.