145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

stefna í málefnum innflytjenda og flóttamanna.

[10:53]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Málefni flóttamanna eru okkur þingmönnum mjög hugleikin þessa dagana, rétt eins og öllum almenningi eftir því sem best verður séð. Það berast áköll úr auglýsingatímum Ríkisútvarpsins núna, það er nýútkomin skoðanakönnun sem sýnir að 60% landsmanna vilja að ríkisstjórnin dragi ekki lappirnar lengur varðandi það að taka ákvörðun í þessu akútmáli, þessu bráðamáli sem hinn þungi flóttamannastraumur til Evrópu er nú um stundir.

Hæstv. félagsmálaráðherra hefur ákallað almenning um stuðning við einhvers konar aðgerðir eða afstöðu af hálfu ríkisstjórnarinnar í þessu máli og það hefur ekki skort á það að almenningur hafi svarað því ákalli. Almenningur hefur opinberlega komið inn á opnar vefsíður, boðið fram aðstoð, boðið fram húsnæði, búnað, ráðgjöf, vináttu, leiðsögn, hvaðeina, jafnvel lestrarkennslu. Það stendur ekki á íslenskum almenningi í þessu máli en það hefur strandað á ríkisstjórninni. Nú er talað um það að ríkisstjórnin ætli hugsanlega að taka ákvörðun í málinu á morgun. Ég fagna því að sjálfsögðu en mig langar til þess að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. innanríkisráðherra, sem ég þakka fyrir að vera hér í dag, hvort hún sé sammála mér um að undir vissum kringumstæðum þurfi að gera greinarmun á almennri innflytjendastefnu stjórnvalda, sem tekur mið af einhverjum almennum viðmiðum, annars vegar og hins vegar bráðum flóttamannavanda. Málefni flóttamanna eru að hluta til innflytjendamál en eru að mörgu leyti annars eðlis.