145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

stefna í málefnum innflytjenda og flóttamanna.

[10:57]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það með hæstv. innanríkisráðherra að málið er stórt og ég hef fullan skilning á því að erfitt er að svara stórum grundvallarspurningum á tveimur mínútum. Ég þakka henni þó fyrir viðleitnina og þakka henni fyrir að hnykkja aðeins betur á ákveðnum sjónarmiðum í þessu, eins og t.d. því að vissulega snýst þetta ekki einungis um móttöku flóttamanna, þetta snýst líka um að koma inn á vettvang þar sem vandinn er og hjálpa fólki í heimalöndum sínum. Í því ljósi hefur náttúrlega stefna ríkisstjórnarinnar vakið talsverðan ugg, vegna þess að í raun og veru er verið að skera niður til þróunarmála, það er verið að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun Íslands. Það er augljóslega ákveðin tvíhyggja uppi í þessu máli þegar ríkisstjórnin er annars vegar.

Við höfum skamman tíma hér. Ég vil nota þetta tækifæri til að brýna ríkisstjórn Íslands í því að líta á það mál sem við stöndum frammi fyrir núna sem (Forseti hringir.) mannúðarmál og bregðast við í ljósi þess. Þetta snýst um mannúð núna.