145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

Akureyrarakademían.

[11:02]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Það er rétt sem hv. þingmaður bendir á að gerðir hafa verið samningar við akademíuna og það er líka rétt að þar er ekki frágengin nein föst fjárhæð. Það er sjálfsagt mál að ræða þetta mál sérstaklega á meðan fjárlög eru til umræðu í þinginu. Þetta varð niðurstaða okkar hvað varðar fjárframlög til Akureyrarakademíunnar. Ég vil benda á að það skiptir máli að á sama tíma erum við líka að auka með mjög afgerandi hætti framlögin til Rannsóknarsjóðs og Tækniþróunarsjóðs, þannig að fjárframlag til rannsókna hefur verið aukið gríðarlega, leyfi ég mér að segja, sem gerir það að verkum að akademískir starfsmenn sem vinna að rannsóknum eiga núna miklu meiri möguleika en áður á að fá fjármagn til rannsókna sinna í samkeppnisumhverfi, vissulega. Þessir fjármunir nýtast þeim sem þar starfa og hér um ræðir með sama hætti og öðrum, þ.e. tækifærin eru mun meiri nú en áður til þess að fjármagna rannsóknir.