145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

Akureyrarakademían.

[11:05]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Þær tölur sem birtast í fjárlagafrumvarpinu eru þær tölur sem lagðar eru til grundvallar. Eins var ekki nein samningsbundin fjárhæð í þeim samningi sem gerður var við akademíuna. Það er líka rétt að hafa þá í huga varðandi umfang þeirrar starfsemi sem um er að ræða, þær tölur sem hv. þingmaður nefndi sjálf um það rekstrarfé sem þessi stofnun hefur haft á undanförnum árum.

Ég ítreka að mikilvægi rannsókna hefur verið undirstrikað með gríðarlegri aukningu í þessu fjárlagafrumvarpi til rannsókna, bæði til Rannsóknasjóðs og eins Tækniþróunarsjóðs og svo í innviðauppbyggingu í kringum rannsóknirnar. Allt nýtist það öllu háskólasamfélaginu á Íslandi, öllum þeim sem starfa við rannsóknir og gerir það umhverfi enn betra en áður var og reyndar er heilmikil bylting, ef svo má segja, þegar horft er til þeirra fjármuna sem áður var varið til þessa málaflokks.