145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:06]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg):

Forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að eiga hér við mig orðastað um þjóðarátak um læsi. Það eru hér nokkur sjónarmið sem mig langar til að viðra við hæstv. ráðherra og fá viðbrögð við. Nú er það ljóst að þetta tiltekna verkefni og viðfangsefni er ekki í menntapólitísku tómarúmi heldur kemur við ýmsa aðra þætti og embættisfærslur hæstv. ráðherra og myndar þar með ákveðna heildarmynd sem er að dragast upp af framtíðarsýn og afstöðu hæstv. ráðherra til skólakerfisins. Það kemur fram í því hvernig fé er ráðstafað, hvernig því er forgangsraðað í kerfinu og hverjar áherslur ráðherrans eru og skilningur hans á menntun og skólastarfi. Nú hefur það því miður verið svo að það hafa verið teknar hér stórar ákvarðanir án þess að um það hafi fengist viðhlítandi umræða. Má þar nefna lokun framhaldsskólans fyrir 25 ára og eldri og styttingu framhaldsskólans niður í þrjú ár án þess að um það væri fjallað sérstaklega í þingnefndum öðrum en fjárlaganefnd.

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrsta lagi að velta upp því meginsjónarmiði að skólinn er ekki einangrað fyrirbæri heldur hluti af samfélaginu. Hann er í raun og veru samfélag í sjálfu sér, verður fyrir áhrifum af samfélaginu og er mótandi afl í samfélaginu og það gildir um öll skólastigin. Þess vegna hef ég áhyggjur af því sjónarmiði sem kemur fram í þessu tiltekna verkefni og endurspeglast í þeirri ítrekuðu sýn ráðherrans að vænlegt sé til árangurs að miðstýra breytingum og miðstýra áherslum.

Við sjáum það mjög gjarnan, þegar um er að ræða stjórnmálafólk sem er til hægri í pólitík, að þar takast á tvö meginsjónarmið. Það er annars vegar óttaleysi við fjölbreytni, víðsýni og val og hins vegar mjög mikil miðstýringar-, skimunar- og mælingarárátta. Hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson tilheyrir frekar hinum síðari hóp þar sem áherslur á skimanir, mælingar, greiningar og eftirlit eru það sem er í fyrirrúmi í hans nálgun á skólastarf, og mundi nú einhver kippast við ef sjálfstæðismenn segðu það nú bara fullum fetum að eftirlitsiðnaðurinn þyrfti meira fóður í skólastarfi því að þegar atvinnulífið er annars vegar þá er ekki mikill áhugi á eftirliti og þar tala menn um íþyngjandi aðgerðir.

Einsleitni er líka nokkuð sem við sjáum því miður allt of mikla áherslu á. Þegar ég heyrði af því á dögunum að verið væri að fækka kennslustundum í skapandi greinum á fyrri stigum í grunnskólum víða um land, vegna áherslu menntamálaráðherra í þessu umrædda verkefni, þá jukust áhyggjur mínar enn.

Læsi í víðum skilningi snýst auðvitað um miklu meira en hinn tæknilega þátt sem hæstv. ráðherra hefur kannski fókuserað á hér í of ríkum mæli. Í aðalnámskrá grunnskólanna segir að þótt þeim verkfærum sem nota má í skólastarfi hafi fjölgað þá skipti sem fyrr miklu máli að börn nái tökum á tiltekinni lestrar- og ritunartækni en athyglin beinist nú jafnframt að allri þeirri tækni sem nemendur geta notað í samskiptum, námi og merkingarsköpun í þágu sjálfra sín og samfélagsins í heild. Hér virðist ráðherrann leggja meiri áherslu á tæknilegan þátt, þ.e. tæknilegan og mælanlegan þátt læsis, en síður þann þátt að nemendur séu virkir þátttakendur í að umskapa og umskrifa heiminn með því að skapa eigin merkingu og bregðast á persónulegan og skapandi hátt við því sem þau lesa með hjálp þeirra miðla og tækni sem völ er á, eins og segir í aðalnámskrá grunnskóla.

Þegar átaksverkefni hæstv. ráðherra endurspeglast fyrst og fremst í því að ráða fjöldann allan af ráðgjöfum til Menntamálastofnunar Íslands í Reykjavík, en við sjáum þess ekki í stað í skattlagningu á bækur eða einhverri viðbótaráherslu á barnabókmenntir eða slíkar örvandi aðgerðir, þá hefur maður áhyggjur af því hver verði afurð átaksins mikla. Stóra spurningin er kannski sú: Mun læsi batna eins og hæstv. ráðherra Illugi Gunnarsson og Menntamálastofnun kjósa að mæla læsi? Eða kannski miklu frekar: Verður íslenski skólinn betri,(Forseti hringir.) verður samfélagið betra og verða börn á Íslandi betur búin undir þátttöku í lýðræðissamfélagi?