145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:17]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að byrja á því að vitna í sálmaskáldið góða, með þínu leyfi:

Að lesa og skrifa list er góð

læri það sem flestir.

Þeir eru haldnir heims hjá þjóð

höfðingjarnir mestir.

Það er alveg ljóst, eins og þessi vísa Hallgríms Péturssonar ber með sér, að við Íslendingar höfum í gegnum aldirnar litið á okkur sem lesandi þjóð, a.m.k. frá því að húsagatilskipun Danakonungs var innleidd hér 1746 þar sem kveðið var á um húslæsi, þ.e. að á hverjum bæ á byggðu bóli skyldi vera a.m.k. einn læs maður til þess að miðla guðspjallinu að sjálfsögðu á kvöldvökunni.

Síðustu árin, eins og fram hefur komið, hefur fjarað undan þessari ímynd okkar sem hinnar ritlæsu þjóðar enda hafa komið fram vísbendingar og kannanir sem hafa bent til þess að lestrargetu ungmenna, sérstaklega drengja, fari mjög hrakandi. Það er auðvitað ástæða þess að nú hefur verið boðað til þessa þjóðarátaks um læsi. Um markmið þess átaks verður að sjálfsögðu ekki deilt enda er læsi grunnfærni sem skiptir máli fyrir framtíðarmöguleika fólks í lífinu.

En ég er hrædd um að viðfangsefnið sé margþættara og flóknara en svo að það verði fullnustað með einu átaki því að læsi krefst margslunginnar færni og samhæfingar. Ritlæsi, tölvulæsi, hljóðlæsi, myndlæsi, þetta er menningartengd athöfn sem byggir ekki bara á því að geta raðað saman hljóðum og orðum.

Ef við höldum okkur við ritlæsið þá þurfa börn að hafa aðgengi að bókum og öðru ritmáli til að læra að lesa. Þau þurfa tíma og aðgengi að fullorðnu fólki sem er tilbúið að lesa fyrir þau og með þeim. Það er ekki nóg að kennarar kunni vel til (Forseti hringir.) verka í skólastofunni því að heimilið verður að geta stutt við læsi barnsins.

Þá erum við komin að aðgerðum stjórnmálamanna og raunverulegri stefnumótun sem ég ætla að ræða betur í seinni ræðu minni.