145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:22]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við gerum okkur öll grein fyrir því að í skólum landsins er unnið margvíslegt og gott starf þar sem starfsmenn leggja sitt af mörkum til að koma til móts við mismunandi þarfir og getu nemenda sinna. Þrátt fyrir það sýna tölur úr ýmsum skimunum okkur það mjög sláandi að 12% af stúlkum og 30% drengja ná ekki tökum á læsi og geta ekki lesið sér til gagns eða gamans.

Mig langar aðeins að taka einn pól hér í umræðuna sem er sá að þrátt fyrir að ég hafi miklar áhyggjur af þessum tölum set ég svolítið spurningarmerki líka við ýmsar skimanir og hvaða þátta þær ná til. Í aðalnámskrá grunnskóla er komið inn á það að við þurfum að vera með mismunandi kennsluaðferðir fyrir mismunandi þarfir og getu nemenda og margar kennsluaðferðir miðast að því að reyna að ná því að við séum að sinna ólíkum hópi með ólíka getu.

Síðan eru lagðar fyrir ýmsar skimanir sem nemendur taka á ákveðnum degi sem mæla afmarkaða þætti og þar skiptir dagsform öllu máli og getur haft stór áhrif á þá þætti sem mældir eru. Mér finnst við þurfa aðeins að skoða samhengið þarna á milli þrátt fyrir að ég sé ekki að gera lítið úr áhyggjum af þessum tölum sem birtast, en við verðum að skoða hvernig þetta kemur saman.

Ég vil bara enda á því að segja að ég fagna þessu þjóðarátaki og mér sýnist vera mikil samstaða um þetta meðal starfsfólks skólanna, sem skiptir miklu máli, meðal sveitarstjórnarfulltrúa og okkar þingmanna. Það held ég að sé einn stór lykilþáttur í því að við náum árangri í því sem við erum að gera.