145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:29]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég þakka þessa umræðu. Í mínum huga er algerlega ljóst að það er eitthvað að í skólakerfinu þegar 30% drengja og 12% stúlkna geta ekki lesið sér til gagns. Það er meginvandinn sem við stöndum frammi fyrir. Af hverju er hann og hvernig leysum við hann? Er hann vegna þess að kennsluaðferðir eru ekki réttar? Er einhver ein kennsluaðferð réttari en önnur? Ég segi: Nei. En vandinn er fyrir hendi og við þurfum að leysa hann fyrir þá nemendur sem svo er ástatt um. Og hvernig gerum við það? Það er meginhlutverkið.

Ég treysti skólafólki í flestu en skólafólk verður líka að vera tilbúið að taka gagnrýni ef svo er að nemendur kunni ekki að lesa sér til gagns eftir tíu ára veru í grunnskóla. Þá er eitthvað að skólakerfinu. Greinum þann vanda og tökum sameiginlega á honum því að það er það sem máli skiptir fyrir börn, að þau geti nýtt sér þá grunnfærni sem er læsi til að læra, hvort heldur það er á bókina, tölvuna eða hvernig svo sem þeir nemendur nálgast þekkingu. Horfumst í augu við vandann, leitum leiða til þess að vinna á honum en hættum að togast á um það hverjum hann er að kenna.