145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:31]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að vandinn liggi í skólakerfinu. Ég held að vandinn geti allt eins legið í sjálfu samfélaginu. Við hér á hinu háa Alþingi erum oft og iðulega að taka ákvarðanir sem hafa beinlínis áhrif á samfélagslegar aðstæður, lífskjör fólks, tíma fólks til að verja með börnum sínum. Við tökum ákvarðanir um virðisaukaskatt á bækur. Við tökum ákvarðanir um starfsaðstöðu skólanna í landinu, útilokum fullorðið fólk frá skólum, minnkum þar með menntunarmöguleika þess. Hér hafa verið teknar ákvarðanir um að þrengja mjög að skólastarfi í landinu. Þetta eru ákvarðanir sem hér eru teknar. Vandinn liggur því líka á Alþingi Íslendinga, gleymum því ekki.

Ég fagna að sjálfsögðu vilja til þess að bæta læsi en eins og ég sagði er að mörgu að hyggja. Er bókin aðgengilegur kostur fyrir fólk í dag? Er hún notuð eftir 60% hækkun á virðisaukaskatti, ákvörðun sem var tekin hér á þessum stað?

Við skulum líka varast þá villu að læsi sé eitthvað sem hægt er að leiðrétta með einu slembiátaki til skamms tíma því að læsi, eins og svo margt annað, er samofið margslungnum menningar- og samfélagsþáttum og skilyrðum sem við alþingismenn erum að taka ákvarðanir um frá degi til dags.

Ísland er lítið málsvæði og ef við ætlum að viðhalda góðu menntunarstigi, læsi er forsenda þess, þá útheimtir það samstöðu og pólitískan stuðning. Norðmenn hafa farið þá leið að ríkið kaupir þar í landi tiltekið magn af útgefnum bókum hverju sinni. Það er stuðningur í verki. Hér á landi tala ráðamenn hins vegar um þjóðarátak í læsi í beinu framhaldi af 60% hækkun á virðisaukaskatti á bækur, í beinu framhaldi af því að fullorðnu fólki hefur verið vísað út úr framhaldsskólunum og í beinu framhaldi af fjárlögum sem þrengja að skólastarfi í landinu. Það verður ekki bæði sleppt og haldið. Stjórnvöld mættu stundum vera betur læs (Forseti hringir.) á sitt eigið samfélag. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)