145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:33]
Horfa

Heiða Kristín Helgadóttir (Bf):

Virðulegur forseti. Takk fyrir það sem ég hef fengið að heyra hér í dag. Ég verð að viðurkenna að orðið læsi er mér oft hugleikið og fær mig oft til að skjálfa. Mér líður svona vegna þess að í hefðbundnum skilningi þess orðs þá er ég varla læs sjálf. Ég misskil gjarnan það sem ég les og ef mér er réttur texti sem ég þarf að lesa upphátt fæ ég kvíðahnút í magann á punktinum, alls ekki stóran en samt smá. Svo byrja ég að lesa og það er alltaf ákveðin óvissuför.

Síðast í gær misskildi ég sérstakar umræður vegna þess að ég mislas yfirskrift umræðunnar og ræðan mín var eftir því. Statusar sem ég skrifa á Facebook og tíst sem ég skrifa á Twitter bera þess glögglega merki að ég er snarlesblind. Ég er komin á þann stað í dag að mér finnst þetta allt saman fyndið frekar en vandræðalegt.

Ég kem ekki hingað upp til að ausa úr skálum sjálfsvorkunnar minnar, ég geymi það fyrir eiginmann minn og þerapista, en mér finnst ástæða til að minna á, eins og fleiri hafa gert hér í dag, að læsi er mjög víðtækt hugtak. Ég vil meina að ég sé mjög tilfinningalæs og persónulega finnst mér það mikilvægara en hvort tvö n eru í einhverju orði eða hvort fáni er skrifaður með f-i eða v-i. Þetta var mér allt mikil kvöl sem barni í grunnskóla. Ég veit að þetta veldur börnum kvöl í dag og fleirum sem ég gekk í skóla með og var í sérstökum tossabekk með.

Læsisátak og fjárveiting til þess er í sjálfu sér gott mál en læsi í mjög einföldum skilningi þess orðs getur skilið marga eftir í myrkrinu. Ég hvet ráðherra til þess að útvíkka skilgreininguna á hugtakinu læsi í þessu þjóðarátaki og velti fyrir mér hvort þjóðarátak um tilfinningalæsi væri jafnvel áhrifaríkara og mundi skila okkur mun betri árangri í öllum þessum merkilegu könnunum.