145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðarátak um læsi.

[11:35]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka málshefjanda, hv. þm. Svandísi Svavarsdóttur, þessa umræðu um þjóðarátak í læsi. Ég vil jafnframt nota tækifærið og þakka hæstv. ráðherra Illuga Gunnarssyni fyrir að setja átakið, þennan sáttmála um að efla læsi í gang og sameina þannig krafta allra sem að málinu koma.

Ég er sammála hv. þm. Ólínu Þorvarðardóttur, þetta er samfélagslegt verkefni. Það er ljósið sem ég sé í þessu átaki. Verið er að vekja samfélagið til vitundar um mikilvægi þess að takast á við þann vanda sem blasir við og hefur ítrekað komið fram í niðurstöðum PISA-kannana. Þetta er mælitæki um það hvernig nemendur eru færir um að lesa sér til gagns. Við þurfum að taka mark á því og bregðast við því og það er verið að gera með þessu átaki.

Við búum á margan hátt við mjög öflugt skólakerfi. Það hafa margvíslegar kannanir sýnt. Hér er blessunarlega dreifstýring í okkar kerfi en umfram allt skiptir kannski hvað mestu máli að nemendum líði vel í skólanum sínum. Það er mikilvægasti mælikvarðinn í mínum huga.

Ég horfi á þetta verkefni sem faglegt ferli, stefnumótunarferli. Það er alltaf sérstaklega ánægjulegt þegar stjórnvöld fylgja eftir stefnu, eins og hér er verið að gera, með skilgreindum markmiðum, tímasettum aðgerðum og staðfestri þátttöku allra sem hafa um málið að segja, samfélagsins alls.