145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[11:43]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Þegar við hugsum um fanga höfum við tilhneigingu til að leggja ofuráherslu á fólkið sem um ræðir. Hvað á maður skilið sem brýtur svona eða hinsegin á öðrum, ef hann lemur einhvern til óbóta eða myrðir jafnvel? Þá vaknar í okkur hefndarþorstinn og sá sem hér stendur er ekki yfir þá tilfinningu hafinn. En þótt hefndarþorstinn verði alltaf til staðar er hann í eðli sínu frumstæð tilfinning. Hefndarþorstinn elur á réttmætri reiði hins saklausa og ótta hins seka. Við munum sem einstaklingar aldrei verða yfir þessar tilfinningar hafin, en sem samfélag, með formlegum ferlum til að ná skýrt skilgreindum markmiðum frekar en að svala eigin frumstæðu hvötum, verðum við að vera yfir þær hafin.

Refsing ein og sér á aldrei að vera sjálft markmiðið heldur tæki til að ná öðrum markmiðum á borð við fækkun afbrota, lækkun endurkomutíðni og helst, vil ég meina, að þegar fangi lýkur afplánun standi honum til boða björt framtíð. Þetta þýðir að við þurfum að hjálpa föngum með ýmsum hætti. Það er þar sem jafnvel mjög góðhjörtuðu fólki ofbýður stundum hugmyndin um að hjálpa fanga, fanga sem hefur jafnvel brotið mjög alvarlega á öðrum, hjálpa honum með atvinnutækifæri, góðri menntun og helst húsnæði að lokinni afplánun. Hugmyndin minnir fólk óhjákvæmilega á allt það saklausa fólk sem ekki hefur endilega aðgang að slíku. En við eigum að líta til fangans þegar hann hefur lokið afplánun og spyrja okkur hvað við viljum helst, sem samfélag, að gerist næst í lífi hans. Ef við nálgumst spurninguna þannig þá verður svarið kannski skýrara.

Flestir hafa einhvers konar öryggisnet, einhvern til að tala við þegar eitthvað bjátar á, einhvern til að redda sér þegar fjárhagurinn verður erfiður, einhvern sem getur hýst mann ef maður missir húsnæðið, alla vega tímabundið. Slík öryggisnet geta verið hundleiðinleg og óþolandi en þau eru samt yfirleitt til staðar í einhverju formi. Fangar hafa hins vegar oft einungis félagslegt öryggisnet í umhverfi sem er mjög hvetjandi til glæpa, vímuefnaneyslu og óreglu. Þá hættir það að vera spurning um hvað henti fanganum. Spyrjum að því hvað hentar samfélaginu. Hentar það samfélaginu að um leið og fangi lýkur afplánun gisti hann hjá vini sínum í mikilli óreglu, vímuefnaneyslu og jafnvel afbrotum? Hentar það samfélagi að þegar fangi lýkur afplánun standi honum það eina tekjuúrræði til boða að detta í sama gamla farið? Nei, virðulegi forseti, það hentar ekki samfélaginu. Betrun hentar samfélaginu. En betrun krefst þess að okkur sé alvara með því að gera vel við einstaklinga sem frá siðferðilegu sjónarmiði eiga ekkert endilega mikið gott skilið, að fangar öðlist strax rétt á atvinnuleysisbótum að lokinni afplánun virkar ekki sanngjarnt gagnvart saklausu fólki sem á um sárt að binda. En þá erum við aftur komin í manngreinarálit í stað þess að reyna að ná settu markmiði, að koma viðkomandi á beinu brautina og út úr því umhverfi sem sennilega gerði það að verkum að hann var fangelsaður til að byrja með.

Betrun þarf að vera annað og meira en að veita einfaldlega menntun og einstaka atvinnutækifæri innan veggja fangelsisins. Betrun þarf að vera heildstæð nálgun sem hefur skýrt afmörkuð markmið. Síðast en ekki síst verðum við að sætta okkur við það að betrun kostar peninga og reyndar fangelsiskerfið óháð því, en það er gott á okkur ef það svíður. Okkur á að svíða fjöldi fanga. Besti sparnaðurinn í fangelsiskerfinu fæst með því að þurfa minna á því að halda.

Því langar mig að spyrja hæstv. innanríkisráðherra: Hver er sýn hennar á fangelsiskerfið, markmið þess og sér í lagi betrun sem hluti af því að ná settum markmiðum?