145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[11:52]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. Þegar málefni fanga og fangelsismála eru metin hér á landi viljum við helst bera okkur saman við Norðurlöndin þar sem endurkoma í fangelsi er lág í alþjóðlegum samanburði og lægri en hér á landi. Í þeim samanburði blasir við munurinn á þjónustu við fanga í formi félagsráðgjafar og sálfræðiþjónustu þar sem við komum frekar illa út og virkilega er þörf fyrir að auka þá þjónustu hér.

Í dag er staðan þannig að fyrir alla fanga sem eru á reynslulausn er aðeins ein staða félagsráðgjafa og hálf staða sálfræðings. Fangar sem eru á reynslulausn eru ekki einsleitur hópur, þeir glíma við margvísleg og ólík vandamál og augljóst er að til að styðja við þá við lok fangelsisvistar þurfa fleiri að koma að. Fjöldatakmarkanir í framhaldsskóla á bóknámsnemendum sem eru 25 ára eða eldri bitna illa á föngum sem hafa klárað sína betrunarvist og vilja afla sér menntunar. Sýnt hefur verið fram á mikilvægi menntunar fanga á leið þeirra til betra lífs. Slæm menntastefna hæstv. ríkisstjórnar kemur sér augljóslega illa fyrir fleiri en fanga.

Huga þarf sérstaklega að heilbrigðismálum fanga, menntun og vinnumálum. Ég hvet hæstv. innanríkisráðherra til að setja á stofn starfshópa sem fara yfir þau mál hvert fyrir sig og setja fram kostnaðarmetnar tillögur til úrbóta. Heilsa fanga er oft og tíðum bágborin, hvort sem er líkamleg eða andleg, menntunarmöguleikar þeirra fara versnandi og vinnumálin eru meðal annars með þeim hætti að fangar ávinna sér ekki lífeyrisréttindi vegna vinnu sem þeir stunda á meðan á fangavist stendur.

Það að fækka endurkomum fanga í fangelsi hefur í för með sér þjóðhagslegan ávinning, um það deilum við ekki, en úrbóta er þörf og til þeirra þarf að grípa sem fyrst.