145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:01]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa sérstöku umræðu sem er alveg einstaklega áhugaverð og þarf að vera af mikilli yfirvegun. Sömuleiðis þakka ég hæstv. innanríkisráðherra fyrir greinargott svar sem kom frá henni, meðal annars hvernig hún talaði um að taka upp mögulega nýjar refsitegundir. En hvaða refsitegundir er hún helst að hugsa um? Það væri mjög gaman að fá að heyra meira um það hvaða vinna hefur farið fram innan fangelsisins. Fangelsið er náttúrlega frekar gömul stofnun, það er kannski ekki mannúðlegasta leiðin til að betra fólk, að loka fólk inni án þess að gefa því nokkurt tækifæri til að betra sjálft sig. Það er alveg spurning hvort fangelsið sé ekki bara hreinlega stofnun sem er barn síns tíma að miklu leyti. Hversu mikið gagn er að því að loka fólk af í samfélaginu?

Ég hlakka mjög til að fá að heyra frá hæstv. innanríkisráðherra um aðrar og nýjar refsitegundir í þessu samhengi.

Á meðan við erum með fangelsi er náttúrlega mikilvægt að huga að föngunum sem eru þar inni. Fangar eru líka fólk og mikilvægt er að koma fram við þá eins og fólk, af virðingu og nærgætni. Það þarf að gefa því fólki sálfræðiþjónustu alla leið frá upphafi til enda og það þarf sömuleiðis að veita því námsráðgjöf sem hefur ekki alltaf verið til staðar.

Nú hef ég ekki mikinn tíma en ég fagna þessari umræðu alveg sérstaklega.