145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:03]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég er ekki vanur að þakka mönnum mikið hérna í ræðustól en ég vil þakka hv. þm. Helga Hrafni Gunnarssyni fyrir þessa umræðu. Ég hef nú aðeins verið í slíkri umræðu í um það bil 25 ár og ég held að við þurfum aðeins að komast út úr þeim fasa, þeim mikla tilfinningafasa og reiðinni, ég er ekki að segja að hún sé óeðlileg, hún er eðlileg, en skynsemin verður einhvers staðar að koma inn. Við getum ekki fjallað um fullnustu refsinga alltaf með hefndina og reiðina að vopni. Við komumst þá ekkert áfram vegna þess að þetta er samfélagslegt mál, það skiptir samfélagið máli hvernig okkur tekst til að betra, fækka brotum o.s.frv.

Ég geri ekki lítið úr mikilvægi þess að menn beri ábyrgð sem af sér brjóta. Ég er hins vegar í miklum vafa um það að rétta leiðin sé í öllum tilvikum að loka menn frá samfélaginu. Hægt er að refsa með allt öðrum hætti. Ég tel að við þurfum að rýmka heimildir um reynslulausn, auka möguleika á annarri refsingu eins og samfélagsþjónustu, jafnvel þótt menn séu með þokkalega þunga dóma.

Ég geri mér jafnframt grein fyrir því að ástandið hjá sumum er þannig að það verður að loka þá af. En þegar það er verðum við að nýta þann tíma vel til þess að viðkomandi verði betri samfélagsþegnar, minni líkur verði á ítrekuðum brotum o.s.frv. Það er afar mikilvægt að við náum að fara í þá umræðu (Forseti hringir.) án þess að láta reiðina og hefndina stjórna henni alfarið.