145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fullnusta refsinga.

[12:05]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Sagt er að þegar félagsleg vandamál eru annars vegar sé það rík tilhneiging okkar Íslendinga að hringja á steypubílinn og má segja að við höfum gert það í fangelsismálunum. Þó að verið sé að byggja mikilvægt fangelsi á Hólmsheiðinni sem skapi ný tækifæri þá verðum við að hafa í huga að það er innihaldið en ekki húsin sem máli skiptir.

Við þurfum ekki að bíða eftir nýjum húsum, við eigum og þurfum að gera miklu betur í vinnu okkar með unga afbrotamenn. Hér liggur annað árið í röð fyrir tillaga um að dómarar fái heimild til að dæma unga afbrotamenn í samfélagsþjónustu. Við getum til dæmis samþykkt það. Við gerum allt of mikið af því að haga kerfi okkar þannig að það herði fremur unga menn í afbrotum en að beina þeim frá þeirri braut. Við getum líka opnað fleiri opin úrræði fyrir fjölda þeirra sem eru á svokölluðum boðunarlista. 400 manns bíða eftir afplánun, margir vegna fremur vægra brota. Það er óþolandi að menn séu sóttir löngu eftir að atvikin hafa átt sér stað, komnir kannski sæmilega aftur á beinu brautina, og teknir inn í afplánun. Það er ódýrt og skynsamlegt úrræði að veita þeim opin úrræði í ríkari mæli.

Fyrst og fremst þurfum við að setja fjármuni í þjónustuna inni í þeim fangelsum sem við þegar eigum, svo hægt sé að deildaskipta þannig að þar geti menn fengið að fara milli deilda ef þeir sýna góða hegðun og að þar þurfi fórnarlömb ekki að afplána með síbrotamönnum í ofbeldisglæpum sem beitt hafa þá sjálfa ofbeldi fyrr á tíð. Það er algjörlega óviðeigandi, virðulegur forseti, (Forseti hringir.) það er innihaldið í þjónustunni við fanga sem við þurfum að leggja miklu meiri rækt við.