145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

101. mál
[13:50]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég vísa bara í umsagnir sem bárust við meðferð málsins á fyrri stigum þannig að það eru ekki neinar persónulegar upplýsingar sem mér bárust á nokkurn hátt heldur það sem kemur fram í umsögn frá Landvernd þar sem fram kemur, með leyfi forseta:

„Á bls. 13 í greinargerð með þingsályktunartillögunni er yfirlit um samráð við mótun landsskipulagsstefnu. Þar kemur fram að við mótun tillögu hafi verið haft samráð við einstakar stofnanir og ráðuneyti …“

Svo kemur fram:

„Í ljósi Árósasamningsins hefði verið eðlilegt að kalla félagasamtök á sviði umhverfismála til samráðs. Tekið skal sérstaklega fram að félagasamtök eru ekki hagsmunaaðili í þeim skilningi sem t.d. orkufyrirtæki eða ferðaþjónustufyrirtæki sem hafa arðsemi að leiðarljósi eru.“

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra, af því að þetta kemur fram í millitíðinni, hvort það sé einhver sérstök ástæða fyrir því að það er ekki kosið að verða við þessari vinsamlegu ábendingu frá Landvernd. Það hefði verið ráðherra og ráðuneyti í lófa lagið að verða við þessum athugasemdum Landverndar.

Síðan vil ég spyrja hæstv. ráðherra um kafla 2.3.2 um flokkun landbúnaðarlands. Í þeim texta kemur fram að umhverfis- og auðlindaráðuneytið í samstarfi við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landgræðslu, Skógrækt og Bændasamtökin standi fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands til nota við skipulagsgerða og aðra stefnumótun um landnýtingu.

Í umsögn sem kemur frá lykilstofnun hæstv. ráðherra, sem er Náttúrufræðistofnun Íslands, er gerð sérstök athugasemd við það að hér séu ekki nefndar þær tvær stofnanir ráðuneytisins sem fara annars vegar með umsjón með friðlýstum svæðum, þ.e. Umhverfisstofnun, og hins vegar Náttúrufræðistofnun sem beinlínis sér um vistgerðarflokkun lands og skipulagða skráningu náttúrunnar sem er skilgreint verkefni þessarar lykilstofnunar og er á borði ráðherra.

Ég vil spyrja ráðherrann hvort það sé einhver tiltekin ástæða fyrir því að þessi ábending Náttúrufræðistofnunar hafi ekki verið tekin til greina við (Forseti hringir.) endurframlagningu málsins.