145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

landsskipulagsstefna 2015--2026.

101. mál
[13:52]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég gat um í fyrra svari mínu þá veit ég ekki annað en að við höfum farið eftir opnu samráðsferli þegar verið var að vinna þessa tillögu. Ég gat þess að málið hefði verið sent til einna 180 aðila. Ég hugsa að það sé frekar í hærri kantinum en hitt varðandi löggjafarsmíði. Það er engin dýpri ástæða fyrir því að Náttúrufræðistofnun er ekki kölluð til varðandi lið 2.3.2. Þetta er flokkun landbúnaðarlands og þarna stendur að í samráði við Skipulagsstofnun, Samband íslenskra sveitarfélaga, Landgræðsluna, Skógrækt ríkisins og Bændasamtökin verði staðið fyrir gerð leiðbeininga um flokkun landbúnaðarlands við skipulagsgerð.

Það er alltaf ágætt að fá ábendingar og hlusta á fólk. Alla vega hef ég yfirleitt haft það að leiðarljósi í mínu lífi þannig að það er ekki nema sjálfsagt að hafa samband við þá ágætu undirstofnun ráðuneytisins, Náttúrufræðistofnun. Ég sé samt ekkert óeðlilegt við hvernig greinin er sett fram. Það eru helstu stofnanirnar sem flokka og hafa skoðanir á landbúnaði.