145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

siðareglur fyrir alþingismenn.

115. mál
[14:22]
Horfa

Flm. (Einar K. Guðfinnsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um siðareglur fyrir alþingismenn. Tillagan er flutt af forsetum Alþingis og formönnum þingflokka. Í tillögunni felast ákveðin tímamót þar sem þetta er í fyrsta sinn sem þjóðkjörnir fulltrúar á Alþingi taka formlega til umfjöllunar tillögu um að setja sér siðareglur. Ég vek athygli á að ég nota hér orðin þjóðkjörnir fulltrúar sem undirstrikar það meginstef siðareglnanna að þingmenn eru kosnir til Alþingis til að vinna að hagsmunum alls almennings.

Með þeim breytingum sem gerðar voru á þingsköpum árið 2011, og kemur fram í 88. gr. þingskapalaga, samþykkti Alþingi að forsætisnefnd skyldi hefja undirbúning að setningu siðareglna fyrir alþingismenn. Í framhaldi af því hófst vinna við undirbúning siðareglnanna. Stuttu fyrir þinglok 2013 lágu fyrir drög að siðareglum sem send voru þingflokkunum til umsagnar, en ekki bárust formleg viðbrögð við þeim. Þrátt fyrir þá vinnu sem þá hafði verið unnin var ljóst að ekki mundi nást samkomulag milli þingflokkanna um afgreiðslu málsins.

Það var á sumarfundi forsætisnefndar í ágúst 2013, þar sem farið var yfir þá vinnu sem unnin hafði verið, að ákveðið var að líta til siðareglna Evrópuráðsþingsins með það í huga að kanna hvort samkomulag gæti náðst um að láta þær reglur gilda, að breyttu breytanda, sem siðareglur þingmanna á Alþingi. Í fyrstu sýndist þessi leið einföld og skynsamleg, en nær öll þjóðþing Evrópu eiga aðild að Evrópuráðinu.

Siðareglur Evrópuráðsþingsins eru á hinn bóginn settar fyrir fjölþjóðasamkomur þar sem fulltrúar þess taka sæti samkvæmt ákvörðun þjóðþinga þeirra landa sem eiga aðild að Evrópuráðinu. Þingfulltrúar Evrópuráðsþingsins sækja þannig ekki umboð sitt til kjósenda í lýðræðislegum kosningum, líkt og á við um alþingismenn og fulltrúa annarra þjóðþinga. Skipulag og uppbygging Evrópuráðsþingsins eru ekki heldur sambærilegt Alþingi. Á það einnig við um störf þingmanna Evrópuráðsþingsins og alþingismanna, til að mynda taka störf þingmanna Evrópuráðsþingsins einnig til kosningaeftirlits í öðrum löndum, en einstök ákvæði siðareglna Evrópuráðsþingsins taka mið af slíku.

Í siðareglum Evrópuráðsþingsins er engu síður að finna lýsingu á tilteknum meginreglum um hátterni þingmanna og hátternisskyldum sem í megindráttum má byggja á viðmið um hátterni þjóðkjörinna fulltrúa á Alþingi.

Það er hins vegar ekki svo að um alþingismenn hafi ekki gilt neinar reglur eða viðmið um háttsemi og framkomu sem þjóðkjörinna fulltrúa. Þannig vinna alþingismenn drengskaparheit að stjórnarskránni, sbr. 47. gr. hennar og samkvæmt 48. gr. stjórnarskrárinnar eru þingmenn eingöngu bundnir við sannfæringu sína og ekki af fyrirmælum frá kjósendum sínum. Enn fremur leiðir það af 50. gr. stjórnarskrárinnar að þingmönnum beri að sinna störfum sínum með þeim hætti að ekki leiði til þess að þeir glati kjörgengi. Til viðbótar þessu geyma ákvæði þingskapa fyrirmæli um hátterni þingmanna, sbr. 4. mgr. 78. gr. um að enginn þingmaður megi greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín og þau atriði sem falla undir agavald forseta Alþingis, sbr. 1. mgr. 8. gr. þingskapa. Auk þessara ákvæða gera lög um þingfararkaup alþingismanna og þingfararkostnað og almenn hegningarlög ákveðnar kröfur til þess hvernig þingmenn koma fram í störfum sínum og utan þeirra. Þó að þær siðareglur sem hér er lagt til að samþykktar verði byggist á siðareglum Evrópuráðsþingsins sækja þær engu síður stoð í framangreindar réttarheimildir svo og almenn ólögfest viðmið sem gera verður til góðrar rækslu þingmannsstarfa og hátternis þeirra sem þjóðkjörinna fulltrúa. Eru þær siðareglur sem hér er lagt til að verði samþykktar jafnframt framangreindum réttarheimildum til fyllingar, sbr. 3. gr. reglnanna.

Þetta er mjög mikilvægt ákvæði að þessar siðareglur eru auðvitað ekki eitthvað sem við erum að innleiða í dag og hefur ekki í neinum mæli fundist staður fyrir í óskráðum reglum eða lögum. Þetta er fyrst og fremst hér til fyllingar eins og kveðið er á um og undirstrikað í 3. gr. þingsályktunartillögunnar.

Til hvers eru þessar siðareglur settar? Má ekki segja að þegar leiði af lögum að til staðar eru viðmið fyrir góða rækslu þingmannsstarfsins? Þarf eitthvað meira, gætu einhverjir spurt. Það er mikilvægt að við spyrjum þessara spurninga, því með þeim leitum við að inntaki eða kjarna þess starfs sem felst í því að taka sæti á Alþingi sem þjóðkjörinn fulltrúi.

Það er þess vegna ekki endilega forsenda fyrir þingmannsstarfinu að fyrir liggi skráðar siðareglur. Slíkar reglur geta hins vegar verið til leiðbeiningar. Það atriði sem ég ætla að nefna núna skiptir að mínu mati höfuðmáli. Þessar reglur geta sem sagt verið til leiðbeiningar og veitt þingmönnum styrk þegar þeir sjálfir standa frammi fyrir erfiðum aðstæðum.

Ég vil árétta í þessu sambandi að með þeirri tillögu að siðareglum sem hér hefur verið lögð fram felst að þingmenn, hver og einn, samþykkja að fylgja reglunum enda beinast þær að þeim sjálfum. Tilgangurinn er, eins og segir í 1. gr. þeirra, að efla gagnsæi í störfum alþingismanna og ábyrgðarskyldu þeirra svo og tiltrú á traust almennings á Alþingi.

Ég ætla nú að víkja stuttlega að framsetningu reglnanna og efni þeirra.

Í fyrsta lagi eru í 1. mgr. 5. gr. reglnanna taldar í sjö stafliðum þær meginreglur sem alþingismenn sem þingkjörnir fulltrúar skuli fylgja. Í meginreglunum felast viðmið eða leiðarljós fyrir þingmenn sem þeir geta sótt stuðning til þegar svo ber undir. Það má segja að þar komi fram kjarni siðareglnanna. Með leyfi hæstv. forseta, eru meginreglurnar eftirfarandi:

„Alþingismenn skulu sem þjóðkjörnir fulltrúar:

a. rækja störf sín af ábyrgð, ráðvendni og heiðarleika,

b. taka ákvarðanir í almannaþágu án þess að vera bundnir af fyrirmælum sem kunna að vera í andstöðu við siðareglur þessar,

c. ekki kasta rýrð á Alþingi eða skaða ímynd þess með framkomu sinni,

d. nýta þá aðstöðu sem þeim er veitt við störf sín með ábyrgum hætti,

e. ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra,

f. greina frá öllum hagsmunum sem máli skipta og varða opinbert starf þeirra og leysa úr árekstrum sem upp kunna að koma með almannahag að leiðarljósi,

g. efla og styðja grundvallarreglur þessar með því að sýna frumkvæði og fordæmi.“

Í 7.–14. gr. siðareglnanna er síðan kveðið nánar á um hátterni, skyldur þingmanna í einstökum tilvikum og í 15.–16. gr. er fjallað um eftirlit með framkvæmd siðareglnanna.

Gert er ráð fyrir því að sérstök siðareglunefnd, sem forsætisnefnd skipar, taki til meðferðar erindi frá almenningi um meint brot á siðareglunum. Nefndin er forsætisnefnd jafnframt til ráðgjafar um öll málefni sem falla undir reglurnar og aðstæður sem kunna að koma upp við framkvæmd þeirra. Við það er miðað að skipan nefndarinnar endurspegli sem best þekkingu á siðareglum og lagareglum á sviði stjórnskipunarréttar og starfsháttum Alþingis.

Í 16. gr. er jafnframt nánari ákvæði um meðferð einstakra mála um skilyrði þess að erindi sé skriflegt og undirritað af þeim sem það leggur fram, og enn fremur um rétt þingmanns til að koma að athugasemdum og skýringum.

Í 17. og 18. gr. er loks ákvæði um afgreiðslu siðareglunefndar á einstökum erindum og umfjöllun forsætisnefndar um þau.

Í fylgiskjali með tillögunum fylgja drög að nánari reglum um meðferð mála út af meintum brotum á siðareglum fyrir alþingismenn.

Ég vil að lokum nefna það mikilvæga atriði í lokamálsgrein 5. gr. siðareglnanna, sem gerir ráð fyrir því að við upphaf þingsetu þingmanns fái þingmenn sérstaka kynningu á siðareglunum og að henni fenginni gefi þeir forseta Alþingis yfirlýsingu þar sem þeir skuldbinda sig til þess að hlíta þeim, en með því móti er tryggt að alþingismenn séu alltaf minntir á gildi siðareglnanna og sé ljós tilvera þeirra.

Ég legg til, hæstv. forseti, að mál þetta gangi til stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.