145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[14:56]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eðli málsins samkvæmt hafa málefni flóttafólks tekið mikinn tíma í umræðu í samfélaginu og sem betur fer. Það er nefnilega eins og hér hefur ítrekað komið fram mikil ábyrgð sem fylgir því að takast ekki á við það verkefni sem fylgir þessum gríðarlegu þjóðflutningum, þetta er orðinn ótrúlega mikill fjöldi fólks. Til að draga þetta fram í nærumhverfið þá er það svo að þegar þessi tillaga var smíðuð og lögð fram höfðu í kringum 2.500 manns látið lífið við það að reyna að koma sér yfir Miðjarðarhafið og sú tala fer hækkandi. Í samhenginu þá er þetta kannski eins og sveitarfélagið mitt, Fjallabyggð og Dalvíkurbyggð. Ef fólk bara staldrar aðeins við og veltir þessu fyrir sér, það er jafn margt fólk og kannski fleira sem hefur látið lífið við það að reyna að bjarga sér og börnum sínum og samsvarar íbúatölum á þessu svæði.

Ég tek undir það sem hér kom fram að mér þykir sú umræða afar veik þegar talað er um að við höfum ekki innviði til að takast á við að hjálpa fólki sem er að berjast fyrir lífi sínu, koma sér í skjól undan stríðsátökum, upplausn og stjórnleysi, forða börnum sínum sem verða jafnvel viðskila við foreldra sína og lenda í klónum á misindismönnum. Við megum ekki fara á þann stað að bera þetta saman, að við getum ekki tekið á móti fólki við þessar aðstæður vegna þess að kerfið okkar hér heima sé ekki nógu gott. Það er vissulega margt fólk sem þarf að bíða eftir þjónustu, því miður, í velferðarkerfinu okkar, eftir heilbrigðisþjónustu og öðru og ég ætla ekki að draga úr því að það er óþolandi og það er hægt að bæta. Það snýst líka um forgangsröðun fjármuna, að mínu viti snýst það fyrst og fremst um forgangsröðun fjármuna. Það er auðvitað við þessa ríkisstjórn að eiga hvað það varðar. En að bera þetta saman og segja að við þurfum fyrst að huga að því áður en við getum tekið á móti fólki finnst mér ekki ásættanlegt. Ég segi við það fólk sem á um sárt að binda hér heima: þetta hefur ekkert með það að gera að það eigi ekki rétt á betri aðbúnaði eða betri kjörum eða öðru því sem það þarf á að halda, það er hægt að gera það líka.

Þeir sem standa í þessum sporum eru ekki í þeim sjálfviljugir. Þetta er fólk sem býr við það ástand að það getur ekki verið heima hjá sér. Í þessari tillögu erum við að tala um kvótaflóttamenn og við erum að tala um sárafáa, 500. Ég hef ekki viljað festa mig í einhverri tölu en við getum dregið fram það sem hér var sagt, þetta er ein blokk hér í borginni. Við erum að tala um að þetta dreifist á sveitarfélög landsins. Sumir hafa efasemdir um það. Ég hef þær ekki. Ég tel að við eigum að dreifa fólki um samfélagið okkar. Við höfum öll gott af því að takast á við þetta verkefni. Ég bý í sveitarfélagi þar sem kom fólk frá Serbíu og Króatíu fyrir margt löngu, hefur að vísu tekið sig upp og flutt þaðan núna. Á Siglufirði býr töluvert af fólki sem kom einmitt sem innflytjendur og í leit að betra lífi þannig að ég held að hvert sveitarfélag sem tekur á móti fjölskyldum eða einstaklingum þurfi ekki að óttast það eða íbúar þess að þjónusta eða annað skerðist eitthvað gagnvart þeim sem fyrir eru vegna þess að við bætum við okkur fólki sem við getum lært af, það getur kennt okkur svo margt og styrkir líka íbúaflóruna.

Ég hvet fólk til að fara inn á síðu Rauða krossins og sjá hvað verið er að gera. Það er líka verið að reyna að aðstoða á vettvangi eins og við sáum svo eftirminnilega í umfjöllun Kastljóss og ég segi aftur, ég er búin að segja það áður í þessari pontu, ég hvet fólk til að horfa á þann þátt hafi það ekki gert það því þar var farið ótrúlega vel ofan í þetta. Átakanlegt en upplýsandi. Ég tek undir það að við eigum að drífa í þessu, gera þetta núna. Það er óþarfi að bíða. Við erum alltaf að setja mál í nefndir. Við getum tekið á móti þessum hópi sem hér er nefndur, 500 manns, leikandi létt án þess að þurfa að vera búin að negla niður allt um það hvernig hlutirnir eiga að vera.

Það er nefnilega oft þannig að þegar fólk er búið að lenda í svona gríðarlegum áföllum eins og fylgir því að vera á flótta að það er ekkert tilbúið til að leysa úr öllum sínum sálrænu vandamálum strax. Það er fyrst og fremst að hugsa um að komast í öruggt skjól, fá þak yfir höfuðið, hafa hreint vatn til að drekka, geta baðað sig og borðað og það vill taka þátt í samfélaginu með því að fara í vinnu. Þetta er eitt af því sem við höfum heyrt undanfarið af því fólki sem hefur komið hingað til lands. Þetta er það sem það vill gera. Svo vill það auðvitað fara heim til sín aftur. Flest viljum við nefnilega gera það, við viljum flest vera þar sem við þekkjum best til, kunnum vel við okkur. Umræðan hefur allt of mikið verið á þann veg að fólk sem hingað komi lendi einvörðungu á kerfinu og taki þar af leiðandi frá öðrum þannig að ég bið ykkur, kæra þjóð, og þá sem þannig hugsa að skoða málið svolítið betur.

Virðulegi forseti. Ég þarf kannski ekki að ræða þetta mál neitt frekar. Ég er í sjálfu sér ánægð með viðhorf innanríkisráðherra, mér finnst hún taka yfirvegað á þessum málum. Ég er ekki endilega sammála henni í öllu því sem hún hefur sagt um þessi mál en mér sýnist hún samt sem áður hafa aukinn vilja til að bæta úr og reyna að gera það hraðar. Hún hefur líka talað um að auka fjölskyldusameiningu og ég tel að það sé mikilvægt. Við erum með fólk hér á landi sem hefur komið til okkar en fjölskylda þeirra er enn þá á heimaslóðum. Það er mikilvægt að fjölskyldusameiningar eigi sér stað og þær verði ekki einskorðaðar við einstæðar mæður eða tiltekna hópa. Það eru miklu meiri líkur á því að fólk nái fótfestu og geti endurreist líf sitt ef það hefur fleiri úr fjölskyldunni eða vinahóp hér sem fá að koma hingað til lands og vera samferða. Ef við viljum flýta fyrir því að fólk verði virkt í samfélaginu þá held ég að við þurfum að huga að þessu þegar við veljum það fólk sem til okkar kemur.

Ég vona að ríkisstjórnin fari að drífa í málum og hún hefur strax tækifæri með fjölskyldusameiningunni fyrir þá sem nú þegar eru hér, það er eitthvað sem hægt væri að gera strax í dag. Ég bind vonir eins og fleiri við það að ríkisstjórnin hætti að hugsa og tala um þessi mál heldur láti verkin tala og á morgun verði fyrsta frétt, helst í kvöld en að fyrsta frétt í fyrramálið sem við heyrum verði sú að verkið sé hafið. Það held ég að gefi stórum hluta þjóðarinnar tilefni til að gleðjast. Það hafa margir boðið sig fram til að taka þátt í þessu stóra verkefni. Einstaklingar og fjölskyldur hafa boðist til að taka að sér munaðarlaus börn og fólk gerir það ekki út í bláinn. Fólki er alvara því þetta er auðvitað stærsta vandamálið sem við stöndum frammi fyrir og því miður er þetta vandamál af manna völdum, bæði þegar kemur að stríðsátökunum og þegar kemur að loftslagsbreytingum sem valda því að ástandið er víða eins og það er.