145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:31]
Horfa

Páll Valur Björnsson (Bf):

Virðulegi forseti. Ég er einn af meðflutningsmönnum þessarar tillögu og er mjög stoltur af því. Það var mjög auðsótt mál að fá mig til að vera með á þessari tillögu.

Maður hefur fengið að heyra það úti í samfélaginu og er oft spurður: Hvað viltu marga? Hvernig eigum við að fara að þessu? Og það er sérstaklega þessi spurning: Hvað viltu marga? Hvað eiga þeir að vera margir, 5.000, 500, 50, 10? Mér finnst ótrúlega erfitt að þurfa að ákveða hvað við viljum margt flóttafólk til Íslands, það skiptir ekki máli.

Fyrir mig skiptir máli að það er alvarlegt ástand fyrir botni Miðjarðarhafs og ekki bara þar heldur út um allan heim og flóttafólk streymir frá heimahögum sínum. Það er ekkert að ástæðulausu að fólk frá Sýrlandi er að flýja þaðan. Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir kom inn á það áðan. Hvers vegna er þetta fólk að fara? Hvers vegna er þessi ótrúlegi straumur fólks í burtu frá Sýrlandi, af því að það er sérstaklega í umræðunni núna? Hvers vegna er það? Jú, það er út af stríði. Það er verið að sprengja heimili fólks í loft upp.

Við sem þjóð tókum þátt í því að fara í stríð við þjóð fyrir nokkrum árum þegar þáverandi hæstv. forsætisráðherra tók þá ákvörðun við annan mann að við yrðum þátttakendur í því stríði og samþykkja það stríð. Kannski er þetta ein afleiðingin af því að við ákváðum það. Þjóð sem er tilbúin að taka þá ábyrgð að fara í stríð við aðra þjóð verður líka að taka ábyrgð á afleiðingunum. Þetta er afleiðingin af því meðal annars.

Þetta er afleiðing af stórfelldri heimsvaldastefnu Vesturlanda gagnvart íbúum á þessu svæði og ekki bara þarna heldur byrjaði þetta fyrir mörgum áratugum eða öldum síðan þegar Vesturlönd fóru að ráðast inn á nýlendur og annað. Það er ekki glæsileg saga og það voru ekki múslimar sem gerðu það. Það voru ekki múslimar sem réðust inn í Afríku og strádrápu fólk þar.

Það er líka þessi umræða um múslima sem orðið hefur á Íslandi sem er mjög dapurleg. Ég var í viðtali í gær í Íslandi í bítið ásamt hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni þar sem hann sagði að hann fyndi fyrir ótta úti í samfélaginu við þetta fólk og það væri aðallega hjá eldra fólki á Íslandi. Það getur vel verið að fólk hafi einhvern ugg í brjósti gagnvart þessu fólki, en af hverju? Hvers vegna hefur það þennan ugg? Er reynsla okkar Íslendinga af því fólki sem hingað hefur flutt slæm? Það finnst mér ekki. Ég hef ekki orðið var við það.

Hér á Íslandi er talið að búi um 1.500 múslimar, íslenskir múslimar, og ég get hreinlega ekki fundið það nokkurs staðar að þeir hafi verið til trafala í þessu samfélagi, að þeir hafi verið með uppsteyt eða óeirðir eða framið glæpi. Þeir gera það ekki, það stríðir algjörlega gegn trú þeirra.

Það búa á milli 20–30 þús. útlendingar á Íslandi, eða fólk af erlendu bergi brotið og í mínu bæjarfélagi, Grindavík, er yfir 10% íbúa útlendingar. Þetta fólk aðlagast samfélaginu þar fullkomlega. Það er að vinna erfiðustu störfin sem við Íslendingar viljum ekki. Hvar sem þú kemur á Íslandi í dag þá eru útlendingar að vinna þessi störf, þjónustustörf, þeir vinna á hjúkrunarheimilum sem sjúkraliðar, ræstingafólk er nánast undantekningarlaust útlendingar og í fiskvinnslu. Í Grindavík eru til dæmis yfir 70% þeirra sem vinna í fiski útlendingar. Þetta fólk aðlagast vel í Grindavík og hefur aldrei verið til trafala.

Mér finnst algjört aukaatriði hvort við tökum 100, 200, 300, 400, 500 eða 1.000. Þessi tillaga miðar við það að við tökum við 100 núna og síðan 200 og 200. Þetta er bara tillaga. Ég get alveg velt því fyrir mér og vil ræða það hvort talan gæti verið hærri. Við þurfum bara að komast að því. Við eigum ekki að vera í pólitískum slag út af þessu máli. Það finnst mér alveg ömurlegt. Þetta á að vera svo sjálfsagt mál að við eigum ekki að þurfa að kýta um það í þingsal og benda hvert á annað, vera í einhverri keppni um það hver sé betri og hver verri. Mér finnst það alveg ömurlegt.

Svo er farið að blanda blessuðu Evrópusambandinu inn í þetta. Það er alveg með ólíkindum að fólk skuli nota sér þessa umræðu til þess. Við höfum annars nóg tækifæri til þess. Þetta snýst um ótrúlegar þjáningar og hörmungar fólks sem ég trúi ekki að snerti ekki hjarta hvers einasta manns á Íslandi. Fólk má vera illa harðbrjósta ef það gerir það ekki.

Ríkissjónvarpið hefur staðið sig gríðarlega vel undanfarið í umfjöllun um þessi mál, sýnt okkur myndir og tekið viðtöl við fólk. Hvað á þetta fólk sammerkt? Það vill lifa í friði. Það vill geta alið börnin sín upp í friði. Ég er alveg viss um það, þrátt fyrir okkar yndislega og stórkostlega land, að fólk vilji ekki helst fara hingað í leit að betra lífi, fólk sem hefur alist upp við allt aðrar aðstæður, allt annað veðurfar og allt aðra menningu. En það vill koma hingað vegna þess að hér er friður, hér er kærleiksríkt samfélag. Við Íslendingar erum kærleiksrík þó að hávær minni hluti hoppi á vagninn og fordæmi þetta og finni þessu allt til foráttu, vitni í Kóraninn og Biblíuna og að búið hafi verið að spá því fyrir mörg þúsund árum að þetta mundi gerast og ala á tortryggni og hatri.

Útlendingar sem búa á Íslandi vilja lifa í friði og hafa aldrei verið til trafala. En orðræðan getur komið af stað vandamálum og það höfum við til dæmis séð annars staðar á Norðurlöndunum en ekkert svakalega mikil vandamál. Það fylgja öllum breytingum vandamál, það er bara þannig. Við verðum að átta okkur á því að í nútímasamfélögum eru gríðarlegar breytingar og fólk er farið að færa sig á milli heimsálfa og landa í miklu meira mæli en nokkurn tímann áður og við verðum bara að takast á við það og vera þátttakendur í því. Það er siðferðisleg skylda okkar.

Við erum aðilar að mannréttindasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Við vorum ein af stofnendum þeirra ágætu samtaka. Í 1. málslið 14. gr. hans stendur að allir eigi rétt á að leita og njóta griðlands erlendis gegn ofsóknum. Okkur ber siðferðisleg skylda til að gera þetta.

Ég vil beina orðum mínum til þeirra sem eru hræddir á Íslandi. Þeir þurfa ekki að vera hræddir. Það er engin ástæða til hræðslu. Lykilatriðið er að sýna þessu fólki kærleika og umhyggju og taka þannig á móti því, hjálpa því, umvefja það og láta það vita að það sé velkomið. Ef okkur auðnast að gera það þá er engin hætta á að hér fari allt á verri veg.