145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

aukinn stuðningur við móttöku flóttafólks.

9. mál
[15:51]
Horfa

Freyja Haraldsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka flutningsmönnum fyrir þessa mikilvægu þingsályktunartillögu og ekki síst hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur sem átti frumkvæði að henni. Í mínum huga er auðvitað augljóst að við styðjum hana og finnst mér í raun mjög skrýtið að þurfa eitthvað að tala um það.

En síðustu vikurnar hefur margt farið í gegnum hugann og er mjög margt sem ég hef hugsað og margt sem mig langar að segja, þess vegna fannst mér flókið að ákveða hvað það væri sem ég vildi tala um hér í dag. Hvað er það sem skiptir máli að segja? Hvað er það sem kemur fólkinu, flóttafólkinu, best?

Hv. þm. Guðmundur Steingrímsson ritaði á Facebook-síðu sína 28. ágúst þar sem hann fjallaði um flóttamannavandann og mikilvægi þess að við tækjum ábyrgð á honum. Hann sagði, með leyfi forseta: „Manni líður illa í manneskjunni.“

Mér fannst þetta svolítið vel orðað. Það er eiginlega þannig sem mér hefur liðið líka. Mér líður illa í manneskjunni. Ég er að horfa á mennsku fólks vera gerða að engu og mennsku okkar bregðast stundum svolítið skringilega við. Mér líður illa í manneskjunni af mörgum ástæðum, fyrst og fremst út af þessu ástandi af því að við höfum búið það til. Stríð sprettur ekki upp úr jörðinni sjálfkrafa eða dettur af himnum ofan, þetta eru aðgerðir mannfólksins. Þetta eru ákvarðanir sem við höfum tekið. Við fjármögnum það. Við höfum tekið þátt í að fjármagna það og gerum enn með margs konar hætti, þar af leiðandi berum við sérstaklega mikla ábyrgð á því að bregðast við. Við getum í raun ekki litið undan. Og þótt við bærum enga ábyrgð gætum við auðvitað ekki heldur litið undan. En í ljósi þess að við erum gerendur í þessu máli þá þurfum við að taka við skömminni og girða okkur hressilega í brók hvað þetta varðar.

Það sem lætur mig líka líða illa í manneskjunni er að horfa á fjölmiðlaumfjallanir og myndir og sjá að það þarf alltaf það til til að vekja okkur. Ég er engin undantekning, við erum svo ótrúlega meðvitundarlaus vegna forréttindastöðu okkar að við þurfum að sjá myndir af deyjandi börnum í flæðarmáli til þess að vakna. Það fer í taugarnar á mér. Það fer í taugarnar á mér fyrst og fremst gagnvart sjálfri mér að ég sé ekki betri manneskja en líka gagnvart okkur sem samfélagi. Auðvitað hugsar maður oft um alls konar mál en það er eins og það þurfti alltaf að troða því í andlitið á manni til þess að við bregðumst við. Ég held að það sé einn af lærdómunum til að draga af þessu að þetta er alltaf vandi sem er til staðar, því miður. Stríðsátök hafa verið til staðar lengi. Þetta minnir okkur á að við þurfum alltaf að vera vakandi, þurfum alltaf að vera á varðbergi og við getum ekki alltaf stokkið til þegar allt er farið úr böndunum og komið í einhver ósköp.

Það sem hefur líka kannski verið flókið fyrir mig og látið mér líða illa í manneskjunni er að umræðan hefur verið margþætt. Hún hefur verið jákvæð og hún hefur verið neikvæð og hún hefur verið skrýtin. Sumar raddir hafa blossað upp um það að við getum ekkert verið að aðstoða fólk frá öðrum löndum sem er á flótta af því við eigum svo bágt sjálf, af því að hér glímum við við vandamál, hópar samfélagsins eru jaðarsettir og búa við mannréttindabrot. Það er kannski alveg rétt í sjálfu sér. Það er fullt af hópum Íslandi sem býr ekki við mannréttindi. Og það er rosalega mikið af vandamálum á Íslandi sem þarf að takast á við. En mér finnst bara mjög eðlilegt að við áttum okkur á því að við erum ekki svona ótrúlega úrræðalaus. Við hljótum að geta gert fullt í einu. Mér finnst mjög skrýtið að heyra sérstaklega stjórnvöld eða stjórnmálamenn tala svona, að þeir feli sig á bak við jaðarsetningu hópa á Íslandi til að gangast ekki við ábyrgð sinni gagnvart flóttamönnum.

Mig langar til að lesa upp úr tilvitnun í yfirlýsingu fatlaðra kvenna í Tabú og stýrihópi kvennahreyfingar ÖBÍ sem við sendum þingmönnum í fyrradag þar sem við útskýrum hvernig það lætur okkur líða þegar við erum notaðar sem afsökun fyrir að brjóta á mannréttindum annarra. Með leyfi forseta, hefst tilvitnun:

„Staða okkar“ — þ.e. staða fatlaðra kvenna — „er ekki þess eðlis að hægt sé að bera hana saman við stöðu flóttafólks. Við erum ekki að finnast dánar í flutningabílum né að drukkna í Miðjarðarhafinu. Að líkja lífi okkar saman er í besta falli fullkomlegt skilningsleysi á lífi okkar og flóttafólks.

Að lokum leggjum við þunga áherslu á að mannréttindabrot gagnvart okkur, sem vissulega eru gróf á Íslandi, séu ekki notuð sem afsökun eða ástæða fyrir því að taka meðvitaða ákvörðun um að brjóta á öðrum hópum með aðgerðaleysi. Við kærum okkur ekki um að vera notaðar sem skálkaskjól fyrir huglaust stjórnmálafólk.“

Það sem við erum að segja er að vissulega er vandi okkar til staðar en það hefur bara ekkert að gera með það að milljónir manna eru á flótta og við þurfum að taka ábyrgð á því. Við bendum líka á í þessari yfirlýsingu sem mér finnst mjög mikilvægt að segja að almennt hafa stjórnvöld ekki sérstakar áhyggjur af okkar stöðu. En allt í einu núna er það mikið áhyggjuefni. Það er náttúrlega alveg ótrúleg hræsni.

Sem betur fer eru þetta ekki einu skilaboðin sem samfélagið sendir. Þvert á móti, viðbrögð borgaranna í samfélaginu hafa verið mjög jákvæð. Fólk hefur boðið fram aðstoð sína. Það hefur lýst yfir vilja til að styðja við flóttafólk, t.d. á Facebook og í alls konar vitundarvakningarherferðum. Fólk vill leggja sitt af mörkum. Fólk er tilbúið og er eiginlega svolítið að bíða eftir að stjórnvöld geri eitthvað. Það er rosalega jákvætt og gott og hefur glatt mig mjög. Ég hef verið stolt af því að tilheyra samfélagi sem getur það. En á hinn bóginn koma líka upp hugsanir sem ég get ekki horft fram hjá um að við þurfum að vanda okkur í þessari umræðu. Drifkrafturinn í því að aðstoða flóttafólk eða vinna með flóttafólki getur ekki byggt alfarið á meðaumkvun eða samúð, að við séum að tala um hvað þau eigi bágt og hvernig við ætlum að koma og bjarga þeim. Akkúrat núna er fullt af flóttafólki að sýna brjálæðislega mikla sjálfsbjargarviðleitni. Það er sjálft að bjarga sér, auðvitað með aðstoð margra, en það er fyrst og fremst sjálft að bjarga sér. Það er að taka ákvörðun um að yfirgefa heimaland sitt, stofna lífi sínu í hættu til að komast burt. Það eina sem við þurfum að gera og erum að gera er að skapa pláss og veita stuðning og vinna með hópnum. En við erum ekki einhverjar ofurhetjur. Ég kæri mig ekki um að vera í hópi sem lítur svo á. Mér finnst það vandræðalegt. Þótt ég viti ekkert um það hvernig er að vera flóttakona eða manneskja á flótta þá veit ég talsvert mikið um það hvernig er að vera viðfang aumingjagæsku annarra. Það er rosalega óþægileg tilfinning, það er rosalega niðurlægjandi og það hjálpar ekki neitt. Stundum er það jafnvel verra en að finna fyrir fyrirlitningu, fordómum og hatri.

Ástæðan fyrir því að ég segi þetta er sú að mér finnst mikilvægt að við höfum það í huga að hingað kemur, ætla ég rétt að vona, stór hópur af flóttafólki og það eru sérfræðingarnir. Það eru sérfræðingarnir sem geta best sagt okkur hvernig við eigum að gera þetta sjálf ásamt því fólki sem hefur það að atvinnu sinni að sinna þróunarsamvinnu og fólk sem hefur nú þegar aðstoðað flóttafólk á Íslandi. Mér finnst mjög mikilvægt að um leið og við sýnum kærleika og virðingu og sýnum að við erum tilbúin til að aðstoða að við munum samt að það er fólkið sem á að skilgreina sig sjálft, það er fólkið sem á að skilgreina hvað er erfitt og hvað ekki, hvaða þjónustu og aðstoð það þarf og hvort það þurfi samúð eða ekki. Það er mikilvægt.

Að lokum langar mig til þess að segja að við þurfum að bregðast við (Forseti hringir.) hratt og faglega. Mig langar í því skyni að benda á að það er til fólk sem gerir það daglega, fólk (Forseti hringir.) sem vinnur við sjúkraflutninga, við að bjarga fólki. Það þarf að taka mjög hraðar ákvarðanir og vinna mjög faglega og hratt. Það er nákvæmlega það sem við (Forseti hringir.) þurfum að gera núna. Við þurfum að taka skjótar ákvarðanir, (Forseti hringir.) vinna faglega og gera það helst í fyrradag.