145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

þjóðgarður á miðhálendinu.

10. mál
[16:02]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu sem lögð er fram af öllum hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um þjóðgarð á miðhálendinu. Þessi tillaga byggir á tillögu sem við í þingflokki Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum áður flutt og vil ég þá sérstaklega nefna Hjörleif Guttormsson sem hóf vinnu við þessi mál á 10. áratugnum en síðar Guðfríði Lilju Grétarsdóttur sem flutti mál um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Þessi tillaga byggir á þeirri vinnu. Hjörleifur Guttormsson lagði fram tillögu á sínum tíma um stofnun bæði Hofsjökulsþjóðgarðs og Vatnajökulsþjóðgarðs, sú umræða eða sú hugmynd kom upp á miðjum 10. áratug liðinnar aldar, og það var á árinu 1998 sem hv. þáverandi þingmaður, Hjörleifur Guttormsson, flutti þingsályktunartillögu þar sem kveðið var á um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu sem hefðu innan sinna marka helstu jökla miðhálendisins og aðliggjandi landsvæða, þ.e. Hofsjökuls, Langjökuls, Mýrdalsjökuls og Vatnajökulsþjóðgarða. Sú tillaga var endurflutt á 123. löggjafarþingi og leiddi til ályktunar Alþingis árið 1999 um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og niðurstaða hennar urðu lögin frá 2007, um Vatnajökulsþjóðgarð. Þá var þjóðgarðurinn formlega stofnaður með reglugerð vorið 2008.

Síðan hefur tillaga um Hofsjökulsþjóðgarð nokkrum sinnum verið flutt en við leggjum hana nú fram sem tillögu um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu í kjölfar umsagna sem bárust um þá tillögu. Það má ljóst vera að umræðan um náttúruvernd hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og krafan um friðun miðhálendisins er orðin hávær. Baráttufundur var haldinn í vor í Háskólabíói á vegum náttúruverndar- og útivistarsamtaka þar sem þessi krafa var orðuð með mjög sterkum hætti og fékk mikinn stuðning fundarmanna á þeim fundi. Þetta hefur verið kannað í skoðanakönnunum þar sem meiri hluti landsmanna er hlynntur stofnun miðhálendisþjóðgarðs. Þegar tillaga um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs var síðast lögð fram kom fram í umsögn Landverndar sú skoðun að rétt væri að friða miðhálendi Íslands með stofnun þjóðgarðs. Þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Mörg og sterk rök hníga að slíkri friðlýsingu; sérstök náttúra sem Íslendingar bera ábyrgð á, möguleikar til einstakrar upplifunar og hughrifa, og sjálfbær ferðaþjónusta og verðmætasköpun fyrir þjóðina. Útivist í lítt snortinni náttúru er einnig mjög mikilvæg fyrir líkamlega heilsu og vellíðan fólks. Sérstaða og verðmæti svæðisins felast í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss og óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem af mörgum eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“

Í þessari umsögn var tekið mjög vel í tillöguna um Hofsjökulsþjóðgarð en í raun lagt til að hún yrði útvíkkuð. Það hefur verið gert hér með tillögu um þjóðgarð á miðhálendinu. Í umsögninni kemur líka fram um stuðning sem hefur verið mældur við þjóðgarð á miðhálendinu, sem er gríðarlega áhugavert, en í skoðanakönnun sem náttúruverndarsamtök létu gera árið 2011 voru 56% aðspurðra hlynnt slíkum þjóðgarði, einungis 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu. Þannig að hugmyndin reyndist eiga vísan stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, meðal allra aldurshópa og um land allt. Það sýnir auðvitað þá breytingu sem hefur orðið á umræðu um náttúruvernd hér á nokkrum árum og ég leyfi mér að segja í raun frá 2002, 2003, ég byrjaði einmitt að hafa afskipti af pólitík þá, ekki síst vegna umræðunnar um Kárahnjúka og þau víðerni sem þar var spillt. Þessi umræða hefur tekið stakkaskiptum síðan þá og ég held að æ fleiri átti sig á þeim verðmætum sem felast í því að eiga ósnortna náttúru og víðerni sem eru eins og kom fram í máli mínu áðan jafnvel meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.

Tillaga okkar hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að undirbúa og hrinda í framkvæmd í samstarfi við hlutaðeigandi aðila stofnun þjóðgarðs sem taki yfir allt miðhálendi Íslands. Ráðherra leggi áætlun um þjóðgarðsstofnun og ráðstafanir sem gera þarf vegna verkefnisins fyrir Alþingi á haustþingi 2017 með það að markmiði að miðhálendisþjóðgarður verði stofnaður vorið 2018 þegar 90 ár verða liðin frá því að sett voru lög um friðun Þingvalla.“

Okkur finnst við hæfi að tengja tillöguna þessari sögu þjóðgarða á Íslandi en vorið 1928 samþykkti Alþingi lög um friðun Þingvalla sem lýstu Þingvelli við Öxará friðlýstan helgistað allra Íslendinga frá og með upphafi þjóðhátíðarársins 1930. Þar voru í raun og veru mörkuð þau mikilvægu tímamót í sambúð lands og þjóðar að verndargildi landsvæðis í almannaeigu hlaut viðurkenningu löggjafans og gerðar voru ráðstafanir í samræmi við það sem miðuðu að því að varðveita þær menningarminjar og náttúrufar. Auðvitað skipti það miklu máli eins og kemur fram hér í greinargerð að þarna var um að ræða hinn forna þingstað en ekki síður þær náttúruminjar sem þar eru. Alþingi var stofnað á Þingvöllum, þingið háð við Öxará í sérstæðu og mikilúðlegu umhverfi frá stofnun þess á þjóðveldistíma allt fram til 1798 að þinghald lagðist af á Þingvöllum. Þingvellir höfðu því ótvírætt og táknrænt gildi sem sögustaður en náttúrufarið heillaði, enda sagði í niðurlagi greinargerðar með frumvarpi til laga um friðun Þingvalla að takmark þjóðrækinna manna með friðlýsingu Þingvalla væri, með leyfi forseta, „að vernda sem best hina sögulegu helgistaði og náttúrufar Þingvallasveitar.“

Þjóðrækni var þannig drifkraftur aðgerða til að varðveita menningu og náttúrufar hins merka staðar. Þótt undirbúningur Alþingishátíðarinnar sem var haldinn á Þingvöllum árið 1930 væri meðal áhrifavaldanna sem urðu til þess að friðlýsingin komst í kring einmitt á þeim tíma einkenndust áformin líka af langtímahugsun og vilja til að vernda Þingvöll og hinar sögulegu minningar vegna óborinna kynslóða.

Það er dálítið merkilegt þegar maður les þessa gömlu greinargerð að sjá þarna langtímahugsun sem við köllum stundum í dag sjálfbæra þróun, hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar, þ.e. að taka ákvarðanir með tilliti til óborinna kynslóða.

Í greinargerð með þessu máli er farið talsvert yfir stöðuna á Þingvöllum á þessum tíma sem varð til þess að þessi lög voru sett. Ég ætla að leyfa hv. þingmönnum að lesa þá skemmtilegu sögu sjálfum, en ástæða þess að við miðum við þetta er að stofnun Þingvallaþjóðgarðs var eiginlega fyrsti áfanginn í verndun tiltekinna svæða hér á landi fyrir mannvirkjagerð og öðru raski í því sjónarmiði að leyfa almenningi að njóta þeirra óspilltra.

Næst var ráðist í stofnun þjóðgarðs árið 1967 er Skaftafellsþjóðgarður var stofnaður. Þjóðgarður var settur á stofn í Jökulsárgljúfrum á grundvelli náttúruverndarlaga árið 1973 og árið 2001 var Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull stofnaður á grundvelli laga um náttúruvernd. Síðan eins og ég fór hér yfir áðan fór fram mjög mikil umræða á 10. áratug síðustu aldar um málefni miðhálendisins og það var í því andrúmi sem Hjörleifur Guttormsson, sem ég nefndi hér áðan, lagði fyrst fram tillögu um þjóðgarða á miðhálendinu sem áttu að miðast við jöklana fjóra, Vatnajökul, Hofsjökul, Langjökul og Mýrdalsjökul. Hún var flutt tvisvar og afurð þess tillöguflutnings var Vatnajökulsþjóðgarður. Þegar hann var stofnaður þá runnu þjóðgarðarnir sem fyrir voru í Skaftafelli og Jökulsárgljúfrum inn í hinn nýstofnaða þjóðgarð.

Vatnajökulsþjóðgarður var mikill og góður áfangi fyrir náttúruvernd á Íslandi. Hann nær yfir Vatnajökul, stærsta jökul landsins og næsta áhrifasvæði hans þar sem er að finna einstakt landslag, jarðmyndanir og lífríki sem nú njóta verndar. Þjóðgarðurinn er ríkisstofnun og er stefna hans mótuð af ráðherraskipaðri stjórn og innan marka hans eru lendur í eigu hins opinbera og einkaaðila og nokkur sveitarfélög eru innan stjórnsýslu- og áhrifasvæðis hans. Sú reynsla sem hefur fengist af starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs og beitingu stjórntækja hans til að rækja það meginhlutverk slíkra stofnana að vernda náttúruna og gera hana aðgengilega almenningi ætti að nýtast vel til nýrra sókna á þessu sviði.

Eins og ég fór líka yfir í upphafi þá hefur nokkrum sinnum verið flutt þingsályktunartillaga um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs, fyrst á 140. löggjafarþingi, aftur á 141. af Guðfríði Lilju Grétarsdóttur og nokkrum öðrum þingmönnum og þingmenn VG hafa síðan flutt tillöguna tvisvar án þess að hún hafi náð fram að ganga og það þótt málið hafi verið forgangsmál okkar á tveimur síðustu þingum.

Í þessari þingsályktunartillögu er lagt til að þjóðgarði verði komið á sem taki yfir allt miðhálendi Íslands. Við vitnum í þessari greinargerð til þeirra umsagna sem bárust frá náttúruverndarsamtökum sem hafa viljað kalla þetta svæði hjarta landsins. Það er gert í ljósi þess að skilningur á nauðsyn og gildi náttúruverndar fer sívaxandi og krafan um friðun miðhálendis fær aukið gildi ár frá ári. Ég vitnaði áðan í könnunina frá 2011 og til fundarins á hálendishátíðinni sem haldin var vorið 2015 í Háskólabíói.

Ég vil líka nefna að lokum að ástæða þess að ég tel málið mjög brýnt og það er enn og aftur eitt af forgangsmálum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs á Alþingi Íslendinga er að þessu svæði er ógnað úr ýmsum áttum. Við erum að horfa framan í hugmyndir um virkjanir, vegalagnir, raflínulagnir sem allar snerta miðhálendið. Allt er þetta til þess fallið að svipta þetta landsvæði og þar með landið í heild mikilsverðum sérkennum og eiginleikum sem er ómögulegt að endurheimta. Og það sem er svo grátlegt við þessar ógnanir er að þær byggjast upp á bútasaumshugsun þar sem er verið að klípa af svæðum með einni virkjun hér, einni raflögn þar, einum vegi hér og alltaf minnka og minnka þessi stóru víðerni þangað til að þau munu ekki geta staðið undir nafni sem slík.

Það er einstök upplifun fyrir hvern þann mann sem hefur farið upp á hálendi Íslands að upplifa það að vera einn með náttúrunni og ekkert mannvirki í augsýn. Það eru auðvitað verðmæti sem við sem þjóð ættum að íhuga. Ég hef stundum sagt og sagði það hér þegar við ræddum um rammaáætlun á síðasta þingi að við gleymum því stundum að hugsa um verðmætin sem felast í því. Við þekkjum það öll sem höfum flogið yfir Evrópu þegar við horfum niður á litla ferkantaða reiti sem fylla landsvæðin og sjáum sjaldnast nokkurt svæði sem er óspillt af mannvirkjum. Síðan þegar flogið er heim til Íslands sjáum við landið fá að njóta sín algerlega án mannanna verka. Það eru ekki lítil verðmæti því á 20. öldinni og þeirri 21. að sjálfsögðu upphófust gríðarlegar umhverfis- og náttúrubreytingar af völdum manna sem felast í nýtingu, getum við sagt, auðlinda og breytingum á landslagi sem hefur gert það að verkum að maðurinn hefur breytt jörðinni meira á þessari öld og hinni síðustu en við höfum séð náttúruna sjálfa breyta jörðinni fram að því.

Mennirnir geta nýtt áhrif sín til mikilla breytinga og það hlýtur að vera umhugsunarefni fyrir okkur þingmenn á Alþingi Íslendinga hvort við ætlum að leyfa hálendinu að fara sömu leið eða hvort við getum sammælst um að fylgja vilja meiri hluta þjóðarinnar og tryggja að hér verði stofnaður þjóðgarður á miðhálendinu. Ég er nokkuð viss um að það yrði ákvörðun sem komandi kynslóðir mundu þakka okkur fyrir, alveg eins og við sem hér stöndum í dag þökkum Alþingi sem samþykkti árið 1928 stofnun Þingvallaþjóðgarðs. Ég held að við hljótum öll hér inni að vera mjög þakklát þeim þingmönnum sem þá tóku þessa ákvörðun og við höfum full tækifæri til að gera þá sem munu standa hér eftir 90 ár jafn þakkláta.