145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

fæðingar- og foreldraorlof.

25. mál
[16:36]
Horfa

Flm. (Páll Valur Björnsson) (Bf):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum, nr. 95/2000, um fæðingar- og foreldraorlof, með síðari breytingum (andvanafæðing).

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þingmenn Björt Ólafsdóttir, Brynhildur Pétursdóttir, Guðmundur Steingrímsson, Óttarr Proppé, Róbert Marshall, Katrín Jakobsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson og Össur Skarphéðinsson.

1. gr. frumvarpsins hljóðar svo:

„Í stað orðanna „sameiginlegan rétt á fæðingarorlofi í allt að þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. 12. gr. kemur: sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs í allt að þrjá mánuði hvort um sig, auk þriggja mánaða sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.“

2. gr.

„Í stað orðanna „sameiginlegan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði“ í 1. málsl. 1. mgr. 20. gr. kemur: sjálfstæðan rétt til fæðingarstyrks í allt að þrjá mánuði hvort um sig, auk þriggja mánaða sem annað foreldrið getur tekið í heild eða foreldrar skipt með sér.“

3. gr. skýrir sig sjálf, en hún er: „Lög þessi öðlast þegar gildi.“

Ég lagði þetta frumvarp fram áður á síðasta þingi, 144 löggjafarþingi, mál nr. 413, og legg það nú fram að nýju þar sem það fékk ekki umræðu þá.

Frumvarpið er lagt fram í því skyni að leggja rétt foreldra sem eiga andvana barn eftir 22 vikna meðgöngu að jöfnu við rétt foreldra sem missa barn stuttu eftir fæðingu á meðan á fæðingarorlofi stendur. Gildandi lög gera greinarmun á rétti til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks í slíkum tilvikum sem nemur sex mánuðum. Engin sanngirnisrök liggja því til grundvallar.

Allt frá gildistöku laga nr. 97/1980, um breytingu á lögum nr. 67/1971, um almannatryggingar, hafa íslensk lög mælt fyrir um rétt foreldra til fæðingarorlofs vegna andvanafæðingar. Samkvæmt fyrsta ákvæðinu um fósturlát og andvanafæðingar og athugasemdum með því var það móðirin sem átti rétt á eins mánaðar fæðingarorlofi og var sá tími hugsaður fyrir konuna til að jafna sig eftir barnsburð. Við þróun ákvæða um fæðingarorlof vegna fósturláta og andvanafæðinga má greina aukna áherslu á hinn andlega þátt slíks áfalls. Í athugasemdum sem fylgdu frumvarpi er varð að lögum um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof, nr. 51/1997, er vísað til þess að það taki konu langan tíma að jafna sig bæði líkamlega og andlega eftir andvanafæðingu. Með gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof, nr. 95/2000, var réttur vegna andvana barns gerður sameiginlegur til þriggja mánaða í samræmi við almennar breytingar í þá veru að báðir foreldrar hefðu sama rétt við fæðingu barns.

Fæðing andvana barns er mikið áfall. Missir barns skömmu eftir fæðingu er einnig mikið áfall. Vart er hægt að halda því fram að munur á þessu tvennu sé þess eðlis að hann réttlæti hin ólíku réttindi samkvæmt gildandi lögum. Ef barn deyr í móðurkviði fyrir fæðingu fá foreldrarnir sameiginlega þriggja mánaða fæðingarorlof. Þeir foreldrar sem eignast lifandi barn en missa það skömmu síðar fá hins vegar fulla níu mánuði í samræmi við hina almennu meginreglu um lengd fæðingarorlofs. Í báðum tilvikum þurfa foreldrarnir að takast á við sambærilegt sorgarferli, til viðbótar því álagi sem fylgir fæðingu barns. Hið andlega bataferli er af sama meiði hvort sem barnið lést í móðurkviði eða stuttu eftir fæðingu.

Með frumvarpi þessu er því lagt til að réttur foreldra til fæðingarorlofs og fæðingarstyrks við andvana fæðingu barns verði sjálfstæður í allt að þrjá mánuði fyrir hvort um sig og sameiginlegur í þrjá mánuði að auki, samtals níu mánuðir. Þetta er í samræmi við tilhögun gildandi reglna við andlát barns skömmu eftir fæðingu sem byggist á hinum almennu réttindum um lengd og skiptingu fæðingarorlofs og fæðingarstyrks.

Ég fór í að semja þetta frumvarp í fyrra þegar mér var bent á þetta misræmi og í rauninni óréttlæti hvað varðar þennan lið. Það var fullt af fólki sem skoraði á mig að gera það, kannski sérstaklega vegna þess að það gerðist ekkert langt frá mér að fólk missti barn sitt, það var andvana við fæðingu. Hvorki ég né nokkur annar getur sagt til um það hvað kona eða foreldrar eða fjölskylda er lengi að jafna sig eftir svona gríðarlegt áfall sem það er að missa barn.

Mig langar að lesa úr grein sem okkar góði vinur og félagi, Guðbjartur Hannesson, skrifaði um þetta. Hann er ekki hjá okkur í dag vegna veikinda og ég vil nota tækifærið og senda honum baráttu- og batakveðjur og ég veit að honum er sama þótt ég lesi upp úr þessari grein sem hann skrifaði og birti 15. október 2012. Hún heitir „Missir á meðgöngu og barnsmissir“. Mér finnst þessi grein fanga það sem frumvarpið gengur út á og hvað barnsmissir er mikið áfall fyrir fólk. Hann skrifaði greinina í tilefni þess að stuðningshópurinn Englarnir okkar stóð fyrir minningarathöfn um missi á meðgöngu og barnsmissi í Hallgrímskirkju 15. október 2012. Í greininni segir hann, með leyfi forseta:

„Þegar barn er í vændum er tilhlökkunin venjulega mikil, allar væntingar standa til þess að í heiminn verði borinn einstaklingur sem foreldrar og aðrir aðstandendur eiga eftir að njóta framtíðarinnar með.

Á hverju ári verður þó fjöldi fólks fyrir þeirri djúpu sorg að framtíð þessa litla einstaklings verður að engu, þegar barnið fæðist andvana, of snemma til að eiga sér líf, eða deyr eftir fæðingu. Eftir sitja foreldrarnir með brostnar vonir, tóma vöggu og þunga sorg sem engin orð duga til að lýsa. Þó eigum við orð sem lýsa börnum án foreldra, mökum án maka en ekkert orð yfir það að vera foreldri sem misst hefur barn.

Sorgin vegna framtíðarinnar sem ekki varð er þó ekki einungis foreldranna. Hún er líka sorg ömmu og afa, systkina, frænda, frænku og vinanna. Allt þetta fólk upplifir sorgina með ástvinum sínum.

Viðbrögð og viðmót gagnvart þeim sem verða fyrir þessari sáru reynslu hefur á undanförnum árum og áratugum breyst mikið til batnaðar. Áður fyrr var reynt að „hlífa“ fólki við sorginni með því að láta sem ekkert hefði gerst og því eru margir sem ekki hafa fengið tækifæri til að vinna úr missi sínum og sorg. Eins eiga margir erfitt með að sýna hluttekningu sína, finna ekki orðin eða vita ekki hvað er viðeigandi í þessum erfiðu aðstæðum. Framtak stuðningshópsins Englanna okkar er mikilvægt, því með opinni umræðu vill hópurinn styðja við aðstandendur þeirra sem missa með því að sýna hluttekningu í sorginni. Orð eru oft óþörf, nærvera, faðmlag eða hlýtt handtak segir svo margt.“

Þessi orð sem eru skrifuð af Guðbjarti Hannessyni lýsa því nákvæmlega sem ég er að tala um. Ég þakka honum fyrir þau og að hafa haft tækifæri til þess að nota þau til þess að styðja við frumvarpið. Ég vona svo sannarlega að það fái umræðu í þinginu og við ræðum þessi mál. Það sýnist örugglega sitt hverjum í þessu eins og svo mörgu öðru, en fyrir mér er þetta mikið réttlætismál og ég þekki foreldra sem hafa lent í þessu sem vita það líka og segja að þetta sé réttlætismál. Það er ekkert hægt að segja fólki að fara bara heim og hvíla sig í þrjá mánuði. Þetta er gríðarlegt áfall.

Hæstv. forseti. Ég endurtek að ég vona að frumvarpið fái brautargengi í þinginu.