145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[16:58]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður flutti hér alveg prýðilega ræðu fyrir þeirri ágætu tillögu sem hann leggur hér fram. Er það ekki rétt munað hjá mér að þessi tillaga gengur í reynd mjög í takt við vilja lögreglumanna sjálfra? Er það ekki rétt að þeir hafi beinlínis samþykkt stefnu sem miðar að því að það verði tekið upp eftirlit af þeim toga sem hv. þm. nefndi hér áðan?

Í fyrra þegar hv. þingmaður mælti fyrir tillögunni þá var hér meðal okkar mjög merkur þingmaður, hávaxnasti þingmaður sem nokkru sinni hefur setið á Alþingi Íslendinga, hv. þm. Geir Jón Þórisson, sem nýtur ekki bara trausts okkar hér heldur var þess megnugur á sínum tíma, þegar miklar öldur risu í samfélaginu, m.a. fyrir utan Alþingishúsið, að stilla hafið og hasta á það eins og annar maður gerði forðum, sem hann hefur reyndar miklar mætur á. Hv. þm. Geir Jón Þórisson sagði þá að það væri afdráttarlaust sín skoðun að tillaga af þessum toga yrði lögð fyrir fagnefnd þingsins og óskaði eftir því að hún yrði afgreidd þaðan með jákvæðu viðmóti.

Ég tel því að hér sé um að ræða mál sem mörg ólík sjónarmið falla að og beri að samþykkja á Alþingi. Ég er einn af þeim sem telja að það eigi að samþykkja þessa tillögu hv. þingmanns og vísa til þess líka að sá sem hér hefur talað sem sérstakur fulltrúi hávaxinna lögreglumanna mælti með því í fyrra.