145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:00]
Horfa

Flm. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. 4. þm. Reykv. n. bendir á að hv. þm. Geir Jón Þórisson, sá sérstaklega háttvirti leyfi ég mér að segja, mælti eindregið með samþykkt tillögunnar í fyrra og fór einmitt yfir það að lögreglumenn sjálfir og yfirmenn hennar hefðu kallað eftir þessu. Ég man að ég las grein á sínum tíma eftir fyrrverandi lögreglustjóra, Stefán Eiríksson, þar sem hann kallaði eftir þessu og gerði það óaðspurður, án þess að nokkur maður hefði stungið upp á því á undan honum endilega þótt það hefði margsinnis verið gert. Síðan var góð ræða hv. þm. Geirs Jóns Þórissonar hér í fyrra eftirminnileg. Það er mikið til af þeim ástæðum sem ég tel að svona mál færi frekar smurt í gegn ef þingstörfin virkuðu þannig að það væri almennt auðvelt, sem þau gera því miður ekki, en það er eins og það er.

Burt séð frá því þá ítreka ég bara það sem ég fór yfir í ræðu minni að þetta er ekki síst fyrir lögreglumenn sjálfa. Ég held að lögreglumenn sem mundu sinna starfi sínu undir sjálfstæðu eftirliti ættu mun auðveldara með starfið. Lögreglustarfið er þannig að lögreglumenn þurfa oft að eiga við aðstæður sem eru erfiðar, ófyrirsjáanlegar og strembnar. Þeir þurfa oft að eiga samskipti við aðila sem eru mjög skilningslausir og ósamvinnuþýðir og erfiðir og með víðfrægt vesen. Undir slíkum kringumstæðum er alltaf hætta á því að menn geri mistök. Eins og hv. þm. Geir Jón Þórisson sagði réttilega hér í fyrra: Lögreglumenn eru bara fólk og þeir gera mistök. Þá er mikilvægt að læra af þeim. — Það er kannski aðalatriðið að það sé tækifæri til að læra af mistökunum en þá þarf líka að skilja mistökin. Það þarf að vera á hreinu hver mistökin voru og hvað eigi að gera til að bæta úr þeim.