145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:02]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér hættir allt of oft til að sjá hið skondna og kómíska í tilverunni. Ég hef alltaf litið á mína félaga í Pírötum sem uppreisnarafl og þá sem heldur vilja — ég kannski segi ekki bylta en færa samfélagið til betri vegar með nokkrum látum. Meðal Pírata er að finna fólk sem ég lít á sem anarkista. Ég tel að það sé bara jákvætt. Anarkismi á víða rétt á sér. Í því ljósi er það nú pínkulítið skondið að einn af helstu leiðtogum hinnar miklu og vaxandi hreyfingar Pírata skuli koma hingað upp og tala eiginlega sem málsvari Stefáns Eiríkssonar lögreglustjóra. Ekki nóg með það heldur flytur hann hér tillögu sem er beinlínis í anda samþykkta Landssambands lögreglumanna. Það er skondið að það skuli vera píratinn hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson.

Ég sjálfur er í hópi þeirra sem bera mikið traust til lögreglunnar. Það er athyglisvert að í könnunum sem gerðar hafa verið á trausti íslensku þjóðarinnar til ýmissa stofnana samfélagsins þá hefur lögreglan á síðustu árum skorað hvað hæst. Ég held að almannarómur hafi dæmt framkomu og háttsemi lögreglunnar á þeim erfiðu tímum sem ríktu hér í kjölfar bankahrunsins með þeim hætti að hún hafi staðið sig afburða vel. Ég er að minnsta kosti þeirrar skoðunar.

Ég tel líka að það sé heppilegt fyrir samstarf okkar, almennings í landinu og lögreglunnar, að tillaga af þessu tagi verði samþykkt. Góðu heilli eru lögreglumenn sammála því líka. Þeir hafa beinlínis lagt það til og þess vegna væri mjög jákvætt ef þessi tillaga hlyti brautargengi á Alþingi Íslendinga.