145. löggjafarþing — 8. fundur,  17. sept. 2015.

sjálfstætt eftirlit með starfsemi og starfsháttum lögreglu.

12. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Það gleður mig sannarlega fyrir hönd okkar sem viljum hag lögreglunnar sem mestan og byggja undir traust við hana að uppreisnaröflin í Sjálfstæðisflokknum hafa líka komið hér og lýst yfir stuðningi við þessa tillögu. Ég tek undir hvert orð sem hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson sagði hérna áðan.

Sögulega er þetta dálítið merkilegt, Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf verið sá flokkur sem hefur talið sér það helst til dyggða að bera fram gunnfána laga og réttar og hefur alltaf staðið vörð um löggæsluna og hefur gert það dyggilega. Hann hefur líka áratugum saman verið stærsti flokkur þjóðarinnar. Nú hafa orðið umskipti og þau eru dálítið merkileg. Nú er komin fram hreyfing sem byrjar á anarkískum fæti, sú hreyfing sem hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson tilheyrir, Píratar, og er samkvæmt könnunum búinn að vera langstærsti flokkurinn frá upphafi þessa árs. Mér finnst það tímanna tákn við þessar aðstæður að það eru Píratar en ekki Sjálfstæðisflokkurinn sem bera fram þetta mál sem má segja að njóti beinlínis stuðnings og sé svar við kröfu Landssambands lögreglumanna. Það hefur meira að segja líka komið fram að Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóri, er upphafsmaður að þessari hugmynd. Einhvern tímann hefði maður haldið að Sjálfstæðisflokkurinn hefði verið sá flokkur sem hefði komið með tillögu af þessu tagi.

Herra forseti. Ég kem nú einungis upp hér til að benda á þessa sögulegu og merkilegu staðreynd að uppreisnarhreyfingin, sem vissulega hefur skorið upp herör og nýtur mikils stuðnings meðal Íslendinga, hefur nú tekið sér í fang, eigum við að segja þann stuðning við það sem einu sinni var kallað tæki borgarastéttarinnar en við hinir dröttumst svona á eftir. Það er tímanna tákn.